Skoðun

Alls­konar núansar

Lilja Kristín Jónsdóttir skrifar

Það hefur vafalaust ekki farið framhjá mörgum að Kastljós tók Þorgrím Þráinsson tali nú í vikunni, og ræddi við hann um geðheilsu ungmenna á Íslandi. Ég vil byrja á að segja við öll börn og unglinga sem mögulega lesa þetta að hika ekki við að leita aðstoðar hjá fullorðnum þegar ykkur líður illa. Það er fólk úti um allt í samfélaginu sem vill hjálpa, styðja, og hlusta. Stundum þarf mikla hjálp, stundum þarf bara smá hjálp. Hvort sem er, ekki bera vanlíðan þína ein/einn/eitt, fólk vill hjálpa þér!

Það er mikið fagnaðarefni þegar fullorðna fólkið lætur sig málefni barna og unglinga varða, og sérstaklega þegar kemur að því að bæta heilsu þeirra og efla sjálfstraust.

Þrátt fyrir umdeild ummæli Þorgríms, sem ég er langt í frá sammála, og tel að sumu leyti skaðleg og ónærgætin, þá er jákvætt að umræðan fari af stað í kjölfarið. Kannski við sem höfum áhuga á málefninu og þekkjum til, hvort sem er frá vísindalegum vinkli, klínískum, eða af reynslu af vinnu með ungmennum, getum tekið okkur saman og tekið á þeim vanda sem er til staðar. Hvort sem við erum á gólfinu þegar mest reynir á, eyðum hversdeginum með krökkunum, eða horfum á kerfið ofan frá, þá er sýn okkar mikilvæg. Mín sýn, sem fræðikona á sviði þroskasálfræði og háskólakennari í mótun, fyrrum sérkennari í unglingadeild grunnskóla, og mamma unglings, er sú að allskonar núansar eiga það til að gleymast. Leyfið mér að útskýra.

Fréttaflutningur af ungmennum Íslands er gjarnan neikvæður, oft á þá leið að ungmennum líði afskaplega illa, sýni af sér hræðilegan námsárangur á alþjóðlegan mælikvarða, og séu eitt risavaxið hegðunarvandamál sem kennarar landsins þurfi að hafa sig alla við að sinna. Þá er umræða um foreldra kapítuli útaf fyrir sig; ef mark er tekið á umræðunni mætti halda að íslenskir foreldrar séu upp til hópa algjörlega vanhæfir drónar sem taki fram yfir hendur barna sinna og kaupi ofan í þau geðlyf ef þau nenna ekki meir. Bæði á Íslandi og erlendis keppast menn við það að skrifa og selja bækur eða halda og selja fyrirlestra þar sem einfaldar lausnir á þessari stöðu eru kynntar, lausnir sem oftar en ekki eru byggðar á afskaplega veikum grundvelli.

Það þarf auðvitað varla að nefna aðal blóraböggul vanlíðunar ungmenna í dag; snjallsímana og samfélagsmiðlana. Oft er nefnd í þessu samhengi bókin „Kvíðna kynslóðin“ (e. „The Anxious Generation“; þvílíkur titill), þar sem höfundur (Jonathan Haidt) týnir af trjám þær rannsóknir sem henta og skilur eftir það sem ekki hentar, til þess að sýna fram á að samfélagsmiðlar eigi nánast alla sök á stöðu þessarar hræðilega kvíðnu og aumu kynslóðar, hvers foreldrar vefja þau inn í bómull og leysa öll þeirra vandamál áður en þau koma upp. Haidt er, líkt og Þorgrímur, talsmaður þess að krakkar þurfi að fá tækifæri til að mæta mótlæti, til þess að þjálfa upp seiglu, og að foreldrar nútímans standi í vegi fyrir þessu með hegðun sinni. Ég mun ekki fara í smáatriðum yfir takmarkanir hinnar umdeildu bókar Haidt, en hún hefur verið gagnrýnd af natni annarsstaðar, meðal annars á kómískan hátt í hlaðvarpinu If Books Could Kill, þar sem innihald þáttarins var rýnt af sérfræðingum [1].

Haidt er nefnilega alls ekki eini maðurinn sem hefur velt fyrir sér hrakandi geðheilsu barna og unglinga, og líklega má segja að margir séu honum vitrari og reynslumeiri þegar kemur að þessum málaflokki. Hér koma núansarnir inn. Ég veit að þeir geta verið leiðinlegir og skemmt svolítið stemninguna, en þegar þeir eru teknir með, þá fyrst skiljum við hlutina. Mig langar að taka saman nokkra punkta sem flækja myndina svolítið.

Ástæður fyrir hrakandi geðheilsu barna og unglinga eru allskonar

Eitt allra virtasta vísindatímarit heims á sviði geðlæknisfræði og sálfræði, The Lancet Psychiatry, birti í fyrra niðurstöður þverfaglegs starfshóps um geðheilsu ungmenna, þar sem sjónarhorn vísindamanna, fagfólks, og talsmanna ungs fólks eru fléttuð saman [2]. Þessi metnaðarfulla og langa grein fer um víðan völl, en úr þessari umfjöllun má lesa að ástæður þess að geðheilsa barna og unglinga fer versnandi eru margþættar. Gríðarlegar breytingar í sálfræðilegum, félagslegum, og líkamlegum þroska á unglingsárum blandast saman við áhrif hinna ýmissa umhverfisþátta, og því miður getur þessi blöndun stundum gengið illa. Flókið samspil umhverfis- og samfélagsbreytinga síðustu áratuga hefur haft áhrif á möguleika og framtíðarsýn ungmenna, og einnig á lífsstíl og framfærslugetu fjölskyldna. Almenn óvissa um eigin velferð er því algeng meðal ungmenna. Þá má ekki vanmeta áhrif nýafstaðins heimsfaraldurs á samfélagið, og þar af leiðandi á geðheilsu barna og unglinga. Álag í skóla og tómstundum er einnig mikið og veldur oft miklu hugarangri. Vitundarvakning í samfélaginu eykur einnig fjölda þeirra sem sækja sér aðstoðar, blessunarlega.

Hvað varðar samfélagsmiðla, þá er hlutverk þeirra flókið. Erfitt er að gera langtímarannsóknir á sambandinu milli samfélagsmiðlanotkunar og slæmrar geðheilsu, en slíkar rannsóknir eru háðar miklum takmörkunum sökum hraðrar framþróunar samfélagsmiðla og breytinga á notkunarmynstri. Orsakasambandið er auk þess óljóst; slæmri geðheilsu fylgir oft aukin notkun, en það þarf ekki að þýða að aukin notkun valdi slæmri geðheilsu. Það má nefna að sumar rannsóknir sýna ekki fram á mikilvægt samband þarna á milli [3] og aðrar sýna jafnvel fram á jákvæð áhrif sumra eiginleika samfélagsmiðla á geðheilsu, sérstaklega fyrir ákveðna hópa ungmenna [3]. Eiginleikar samfélagsmiðla eru margir og mismunandi, og hafa líklega mismunandi áhrif á mismunandi ungmenni, á mismunandi þroskastigum [4, 5].

Börn og unglingar eru allskonar

Hvert barn eða unglingur hefur sinn persónuleika, sína styrkleika og veikleika, sína reynslu. Börn og unglingar þroskast á mismunandi hraða, og allskonar ólíkir hlutir eru að gerast í heilum þeirra í tengslum við mismunandi þroskastig. Mismunandi einstaklingar á mismunandi þroskastigum hafa síðan mismunandi þarfir. Það er því ekki þannig að ein strategía virki fyrir alla; „þroskaþjófnaður“ eins foreldris getur þannig verið bráðnauðsynleg aðstoð og eðlileg umhyggja annars foreldris. Aukin hreyfing, útivist og núvitund getur vissulega hjálpað mörgum börnum að losa um kvíða og eirðarleysi, en léttir ekki endilega á svartnætti og vonleysi hjá öðrum börnum. Að banna samfélagsmiðla til 16 ára aldurs gæti mögulega komið í veg fyrir kvíða og samanburð hjá sumum börnum og unglinum, en gæti hrifsað mikilvæga líflínu og möguleika á félagslegum samskiptum frá öðrum.

Sambönd barna/unglinga og foreldra eru allskonar – samspil erfða og umhverfis móta einstaklinga

Langflestir foreldrar eru að gera sitt besta fyrir börnin sín. Ef foreldrar sýna barni sínu umhyggju, velvild og hlýju, þá má ætla að þar séu á ferð góðir foreldrar. Samskipti og sambönd mótast alltaf af þeim aðilum sem eiga að þeim þátt, auk þess sem utanaðkomandi aðstæður hafa áhrif. Mikilvægt er að hafa í huga að erfðir og umhverfi spila saman í mótun einstaklings. Kannski sýnir Siggi litli ekki bara seiglu af því pabbi hans leyfir honum að mæta mótlæti - mögulega býr pabbi hans Sigga yfir mikilli seiglu í sínum persónuleika sem Siggi litli hefur síðan erft. Þessi „meðfædda“ seigla hans Sigga gerði pabbanum svo auðvelt fyrir að leyfa Sigga að mæta svolitlu mótlæti. Aðrir gætu, vegna flókins samspil erfða, umhverfisþátta, og reynslu, átt mun erfiðara með að mæta mótlæti, og gætu því þurft á stuðningi að halda til þess að byggja upp seiglu frá sínum persónulega upphafspunkti. „Mótlæti“ er líka erfitt að skilgreina, og hefur mismunandi þýðingu fyrir hvern og einn einstakling.

Það er sannarlega þarft og gott að peppa krakka í þessum skrýtna heimi okkar. En við þurfum að velja orðin okkar vel. Börn og foreldrar eru allskonar, og búa við allskonar aðstæður. Mismunandi vandamál kalla á mismunandi lausnir, og við þurfum að gefa þessum núönsum pláss. Það væri afskaplega sorglegt að búa til langvarandi og sársaukafulla skömm, í stað þess að hvetja fallegu börnin og unglingana okkar til dáða.

Höfundur er doktorsnemi í þroskasálfræði við háskólann í Uppsala, Svíþjóð.

Heimildir

[1] Hobbs, M., Shamshiri, P. (8. ágúst 2024). The Anxious Generation [Hlaðvarp]. Í “If Books Could Kill”. https://www.patreon.com/IfBooksPod

[2] McGorry, Patrick D., Cristina Mei, Naeem Dalal, Mario Alvarez-Jimenez, Sarah-Jayne Blakemore, Vivienne Browne, Barbara Dooley, et al. 2024. “The Lancet Psychiatry Commission on Youth Mental Health.” The Lancet. Psychiatry 11 (9): 731–74.

[3] Panayiotou, M., Black, L., Carmichael-Murphy, P. et al. Time spent on social media among the least influential factors in adolescent mental health: preliminary results from a panel network analysis. Nat. Mental Health1, 316–326 (2023). https://doi.org/10.1038/s44220-023-00063-7

[4] Orben, A., Meier, A., Dalgleish, T. et al. Mechanisms linking social media use to adolescent mental health vulnerability. Nat Rev Psychol3, 407–423 (2024). https://doi.org/10.1038/s44159-024-00307-y

[5] Orben, A., Przybylski, A.K., Blakemore, SJ. et al. Windows of developmental sensitivity to social media. Nat Commun13, 1649 (2022). https://doi.org/10.1038/s41467-022-29296-3




Skoðun

Skoðun

Sam­úð

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar

Sjá meira


×