Ísak er tvítugur og hefur þegar farið á stórmót fyrir Íslands hönd, með yngri landsliðum. Síðasta sumar var hann í íslenska liðinu sem endaði í 7. sæti á EM U20-landsliða.
Hann hefur búið í Noregi nær alla sína ævi en á íslenska móður sem heitir Jenný Rut Sigurgeirsdóttir. Pabbi hans er norskur, Stein Simonsen, og Ísak á tvíburabróðurinn Viljar.
Ísak hefur í vetur staðið sig vel á sinni fyrstu leiktíð í norsku úrvalsdeildinni, með Drammen sem er í 5. sæti, og bankar sífellt fastar á dyrnar að A-landsliði Íslands. Hann var til að mynda einn af fimm markvörðum sem Snorri Steinn Guðjónsson setti á 35 manna listann fyrir HM í janúar – listann yfir þá sem hefðu mátt spila fyrir Ísland á mótinu. Þá gæti hann fengið tækifæri í komandi leikjum við Grikkland í mars.

Í viðtali við Handball.no var Ísak spurður út í það af hverju hann hefði ákveðið að velja íslensk landslið fram yfir þau norsku, þrátt fyrir að búa í Noregi.
Svalt að feta í fótspor afa
„Það eru fleiri en ein ástæða fyrir því. Þegar ég var á fyrsta ári í framhaldsskóla kom ég á sama tíma inn í bæði landsliðin. Ég ræddi við foreldra mína um hvað ég ætti að velja. Mamma er íslensk en pabbi norskur. Það var eiginlega engin skýr ástæða fyrir því að ég valdi Ísland en handboltinn er stór þar. Þegar það er stórmót í gangi þá missir enginn Íslendingur af því,“ sagði Ísak og bætti við:
„Þar að auki átti ég afa, Sigurgeir Sigurðsson, sem stóð í markinu hjá íslenska landsliðinu. Það var svolítið svalt að geta fetað í hans fótspor.“
Sigurgeir varð á sínum tíma til að mynda Íslandsmeistari með Víkingi og lék einnig með Haukum sem og íslenska landsliðinu. Það gæti verið að strax í næsta mánuði afreki Ísak það að verða einnig einn af A-landsliðsstrákunum okkar:
„Ég hef æft með íslenska landsliðinu tvisvar eða þrisvar sinnum og það var virkilega spennandi. Ég er búinn að fá einhverjar vísbendingar um að ég gæti verið valinn í leikina í undankeppni EM í mars,“ sagði Ísak.

Þjálfarinn Kristian Kjelling fékk hann til Drammen eftir að hafa fylgst með honum síðustu ár.
„Hann lokaði markinu í inntökuprófinu fyrir Toppíþróttaskólann (á norsku: Toppidrettsgymnaset). Þá sagði ég við pabba hans: Við tölum saman eftir nokkur ár,“ sagði Kjelling við Handball.no og var einnig spurður hvað gerði Ísak svona góðan:
„Ísak leggur sig allan í þetta og er auðmjúkur. Hann lætur öskrin í mér ekki trufla sig og er leikmaður sem ég hef mikla trú á.“