Körfubolti

Borche: Dómararnir sjá það sem þeir sjá

Árni Jóhannsson skrifar
Borche þurfti stundum að biðla til dómara leiksins.
Borche þurfti stundum að biðla til dómara leiksins. Vísir/Anton Brink

Borche Ilievski var ánægður með sína menn þrátt fyrir 90-87 tap gegn Val í 19. umferð Bónus deildar karla í kvöld. Hann var hinsvegar ekki alveg viss með dómara leiksins í lok hans.

Þjálfari ÍR, Borche Ilievski, var spurður að því eftir leikinn hvort hann hafi getað beðið um eitthvað meira frá sínum mönnum.

„Ég meina við stóðum okkur vel í kvöld og það eina sem vantaði var að vinna leikinn. Ég er ánægður með það hvernig við komum inn í leikinn og hvernig þeir spiluðu mesta allan leikinn. Að sjálfsögðu þá eru mistök hér og þar sem eru hluti af leiknum. Ég er ekki viss um að dómararnir hafi haft rétt fyrir sér þegar þeir slepptu því að flauta þegar Jakob Falko var snertur í lokasóknunum okkar. Ég er ekki viss hvort þetta hafi verið villur eða ekki en á hinum endanum var flautað á svipaða hluti. Ég set spurningamerki við þetta en svona er þetta. Við getum ekki kvartað, dómararnir sjá það sem þeir sjá og flauta á það sem þeir sjá. Ég er bara sorgmæddur yfir því að ná ekki í sigurinn.“

Það hlýtur samt að vera eitthvað sem Borche getur tekið jákvætt út úr leiknum í kvöld þrátt fyrir tap?

„Ég er hrifinn af andanum og hvernig við spiluðum í 40 mínútur. Að endingu voru þeir kannski heppnari þegar boltinn barst til Kára þegar hann tók forystuna fyrir þá og við fengum tækifæri til að jafna í lokin en það fór ekki ofan í. Svona er það. Það er margt jákvætt og þetta er stíllinn okkar. Svona þurfum við að spila. Við náðum ekki að klára leikinn gegn Njarðvík og ekki þennan heldur og ég er dálítið vonsvikinn með það. Við þurfum að gera örlítið betur og leggja meira á okkur fyrir næsta leik.“

Talandi um að ná ekki að loka leikjum. Hefur Borche einhverjar áhyggjur af því að ÍR nái ekki að loka þessum leikjum?

„Ég hef ekki áhyggjur. Ef Jakob Falko hefði fengið villurnar í lokin þá hefðum við lokað þessu. Það varð ekki og þannig er það. Við höldum bara áfram.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×