Innlent

„Geri ráð fyrir að þetta séu um­mæli sem féllu í hita leiksins“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er dómsmálaráðherra.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Dómsmálaráðherra segir að ummæli menntamálaráðherra um íslenska dómstóla ekki góð, og að þau hafi líklega fallið í hita leiksins. Þetta kom fram að loknum ríkisstjórnarfundi í dag, en þar baðst menntamálaráðherra jafnframt afsökunar á orðum sínum.

Á dögunum tapaði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, og eiginmaður hennar bótamáli sínu á hendur ríkinu vegna meintra mistaka fulltrúa sýslumanns við úthlutun eftir uppboð á heimili hennar árið 2017. 

Við aðalmeðferð málsins sagði Ásthildur að traust hennar á dómskerfinu væri afskaplega lítið, og eftir að héraðsdómur kvað upp dóm sinn sagðist hún hafa misst alla trú á réttlæti í dómskerfinu.

Síðan hafa margir lagt orð í belg og gagnrýnt ummælin. Sjá nánar.

Tekur ekki undir

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í dag að hún tæki með engum hætti undir þessi ummæli.

„Ég geri ráð fyrir að þetta séu ummæli sem féllu í hita leiksins. Ég sem dómsmálaráðherra tek auðvitað á engan hátt undir þau. Ég ber fullt traust til íslenskra dómstóla, og finnst ástæða til að árétta að það eiga ráðherrar í ríkisstjórninni allir að gera.“

Fóruð þið fram á að hún leiðrétti þessi ummæli?

„Við ræddum þetta og hún svarar fyrir þetta sjálf,“ sagði Þorbjörg, en örskömmu síðar baðst Ásthildur afsökunar.

„Þetta eru auðvitað ekki góð ummæli. Ráðherrar þurfa að muna eftir því að þeir tala úr valdastöðu. Ég tala sem dómsmálaráðherra, ber fullt traust til dómstóla, og held að það sé í rauninni ekki mikið meira um það að segja,“ sagði Þorbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×