„Með þessu frumvarpi er stigið stórt skref í þá átt. Frumvarp þetta leggur til aukinn rétt mæðra sem glíma við veikindi í tengslum við meðgönguna til orlofstöku. Þá er einnig lagt til að bæta hag fjölburaforeldra. Það fylgir því aukið álag að eignast tvö börn í stað eins, enda verkefnin tvöfalt fleiri en venjulega á meðan hendurnar til að vinna þau verk eru jafn margar,“ sagði Inga Sæland þegar hún mælti fyrir frumvarpinu á þinginu.
Í frumvarpinu er lagt til að réttur til fæðingarorlofs sem og réttur til fæðingarstyrks vegna fjölburafæðinga verði aukinn enn frekar.
„Þannig að foreldrar eigi sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks í sex mánuði fyrir hvert barn sem fæðist umfram eitt. Eignist fólk tvíbura lengist orlofið um hálft ár, um tólf mánuði í tilfelli þríbura,“ sagði félags- og húsnæðismálaráðherra.
Frumvarpið nær einnig til foreldra sem frumættleiða eða taka fleiri börn en eitt í varanlegt fóstur á sama tíma. Þeir foreldrar eigi sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks í sex mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.
„Með frumvarpinu er einnig lagt til að heimilt verði að lengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda í tengslum við meðgönguna, enda verði veikindin rakin til meðgöngunnar og móðir hafi af þeim völdum verið ófær um að annast barn sitt í fæðingarorlofi,“ sagði Inga.