Körfubolti

„Aldrei séð annan eins mun á villufjölda“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Borche Ilievski kallar eftir meiri sanngirni í dómgæsluna í næsta leik liðanna. 
Borche Ilievski kallar eftir meiri sanngirni í dómgæsluna í næsta leik liðanna.  Vísir/Anton Brink

Borche Ilievski, þjálfari ÍR, var allt annað en sáttur við dómaratríóið sem sá um dómgælsuna þegar lið hans laut í lægra haldi fyrir Stjörnunni í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Bónus-deildar karla í körfubolta í kvöld. Sigur Stjörnunnuar þýðir að liðið er komið í kjörstöðu með 2-0 forystu í einvíginu. 

„Við nálguðumst þennan leik mun betur en fyrsta leikinn og ég er mjög stoltur með hugarfar leikmanna og hvað þeir lögðu mikið á sig til þess að freista þess að vinna. Við spiluðum mun betri vörn og vorum inni í leiknum allan tímann. Því miður dugði það ekki til að þessu sinni,“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, að leik loknum.

„Að mínu mati var það dómgæslan sem varð til þess að við náðum ekki að fara alla leið og landa sigri. Það hallaði verulega á okkur þegar kemur ákvörðunum dómaranna og ég efast um að það hafi áður gerst í sögu úrslitakeppninnar að annað lið fái dæmdar á sig 20 villur í einum leikhluta og hitt sex,“ sagði Borche pirraður.

ÍR-ingar fengu dæmdar á sig 29 villur í þessum leik en Stjörnumenn hins vegar 15 villur. Borche telur að bæði lið hafi spilað jafn aggresívan varnarleik en Stjarnan hafi fengið að komast upp með meiri hörku í varnarleik sínum.

„Annað liðið fær að spila aggressíva vörn og komast upp með það á meðan við lendum í villuvandræðum með lykilleikmenn okkar þegar líða tók á leikinn. Það varð til þess að við náðum ekki að stíga skrefið allan leið og vinna,“ sagði hann um dómara kvöldsins.

„Við munum mæta með sama baráttuanda og trú á okkar í leikinn á föstudaginn. Vonandi fáum við þar sanngjarna dómgæslu og spilum á jafnréttisgrundvelli. Stjarnan er með frábært lið og þarf ekki á hjálp dómaranna að halda eins og var uppi á teningnum í kvöld til þess að vinna leiki,“ sagði þjálfarinn um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×