Innlent

Línan um­deilda fær grænt ljós fyrir dómi

Árni Sæberg skrifar
Rafmagnslínur Landsnets á Reykjanesi. Til stendur að stórefla flutningskerfið þar með Suðurnesjalínu 2.
Rafmagnslínur Landsnets á Reykjanesi. Til stendur að stórefla flutningskerfið þar með Suðurnesjalínu 2. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað Landsnet og Sveitarfélagið Voga af öllum kröfum landeigenda í Vogum, sem kröfðust þess að framkvæmdarleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 yrði ógilt.

Þetta segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness, sem kveðinn var upp í dag. Þar segir að helstu málsatvik hafi verið þau að með ákvörðun Voga í júní 2023 hafi verið samþykkt að veita Landsneti framkvæmdaleyfi vegna áforma um að reisa raflínuna Suðurnesjalínu 2.

Landeigendurnir hafi ásamt fleirum kært ákvörðunina til Úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála og krafist ógildingar hennar. Með úrskurði nefndarinnar í janúar 2024 hafi því verið hafnað að felld yrði úr gildi ákvörðun Voga um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Sama dag hafi Vogar gefið út framkvæmdaleyfi til Landsnets.

Í pípunum í tuttugu ár

Í dóminum segir að framkvæmdin Suðurnesjalína 2 feli í sér að reist verði ný 220 kV háspennulína milli tengivirkis við Hamranes í Hafnarfirði og tengivirkis á Njarðvíkurheiði í Reykjanesbæ. Suðurnesjalína 2 liggi í gegnum fjögur sveitarfélög: Hafnarfjörð, Grindavík, Sveitarfélagið Voga og Reykjanesbæ. Lengsti hluti framkvæmdarinnar nemi 17,26 kílómetrum innan Sveitarfélagsins Voga. Framkvæmdin sé liður í nauðsynlegri styrkingu raforkuflutningskerfis á Reykjanesi. 

Áform um lagningu Suðurnesjalínu 2 eigi sér langan aðdraganda en undirbúningur málsins nái allt aftur til ársins 2005.

Samkomulag en líka málefnalegar ástæður

Í dóminum segir að samkomulag frá árinu 2023 milli Voga og Landsnets hafi að mati dómsins haft áhrif á ákvörðun Voga um að veita framkvæmdaleyfið en önnur málefnaleg rök hafi jafnframt legið að baki henni.

Þannig hafi einkum verið lagðir til grundvallar brýnir hagsmunir um raforkuöryggi fyrir íbúa sveitarfélagsins og almenning. Þá yrði minna rask á eldhrauni með loftlínu. Það verði almennt að teljast á forræði sveitarstjórnar að draga fram þá umhverfisþætti sem hún leggur áherslu á í mati sínu á því hvernig hagsmunum íbúa sveitarfélagsins sé best borgið. 

Enn fremur hafi Vogar horft til þess að með loftlínu væri afhendingaröryggi kerfisins í heild aukið með tilliti til náttúruvár. Þetta styðjist við gögn og upplýsingar sem aflað hafi verið frá sérfræðingum við meðferð málsins.

Loftlína standi frekar af sér jarðskjálfta

Í þessu sambandi megi sérstaklega vísa til skýrslunnar „Drög, Suðurnesjalína 2, greining á tjónanæmi vegna jarðvár“ sem unnin hafi verið af Eflu og Verkís í mars 2023. 

Þar komi fram að jarðskjálftar og jarðhreyfingar séu mun líklegri vá á línuleiðinni en hraunflæði og að loftlína muni standa mun betur af sér jarðskjálfta og aðrar jarðhreyfingar en jarðstrengur. Þá séu góðar líkur á að loftlína geti staðið af sér hóflegt hraunrennsli. 

Jafnframt segi í skýrslunni að varnaraðgerðir vegna jarðstrengs geti orðið flóknar og kostnaðarsamar. Þannig hafi það verið megin niðurstaða skýrslunnar að með tilliti til raforkuöryggis á Suðurnesjum vegna tjónnæmis gagnvart jarðvá væri loftlína betri kostur en jarðstrengur. Í því mati vegi þungt að viðgerðartími vegna tjóns á jarðstreng sé verulega lengri en loftlínu.

Engir gallar

Í niðurstöðukafla dómsins segir að með vísan til framangreinds og frekari umfjöllunar um málsmeðferð veitingar framkvæmdaleyfisins sé það niðurstaða dómsins að engir form- eða efnisannmarkar hafi verið á undirbúningi eða meðferð málsins sem geti leitt til þess að ógilt verði framkvæmdaleyfi sem Vogar veittu Landsneti vegna lagningar svonefndrar Suðurnesjalínu 2.

Því væru Vogar og Landsnet sýkn af öllum kröfum landeigendanna og landeigendunum gert að greiða þeim 1,2 milljónir króna óskipt, hvoru um sig.


Tengdar fréttir

Rafmagn komið aftur á Suðurnesjum

Rafmagn er komið aftur á Suðurnesjum en rafmagnslaust varð í Keflavík, Ásbrú, Sandgerði, Garði og víðar fyrir um klukkustund. 

„Það er ekkert hlustað“

Bæjarstjóri Voga er ekki bjartsýnn á að hlustað verði á sjónarmið sveitarfélagsins varðandi lagningu Suðurnesjalínu tvö. Hann átti fund með innviðarráðherra í dag um málið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×