Erlent

Um­fangs­miklar og óút­skýrðar raf­magns­truflanir á Íberíu­skaga

Kjartan Kjartansson skrifar
Horft eftir Gran Vía sem liggur í gegnum miðborg Madridar. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Horft eftir Gran Vía sem liggur í gegnum miðborg Madridar. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Rafmagni hefur slegið út um allan Spán og Portúgal í dag en engar skýringar liggja fyrir á truflununum. Netöryggisstofnun Spánar rannsakar hvort að tölvuárás kunni að valda rafmagnsleysinu.

Tilkynningar um rafmagnstruflanir byrjuðu að berast upp úr hádegi að spænskum tíma í dag, að sögn spænska blaðsins El País. Þær hafa borist frá öllum sjálfstjórnarhéruðum landsins og Portúgal. Samkvæmt rauntímagögnum virðist orkunotkun hafa dregist saman um helming á landsvísu á Spáni frá hádegi.

Þau orkufyrirtæki sem blaðið náði sambandi við höfðu ekki skýringar á orsökunum. Spænsk stjórnvöld rannsaka nú truflanirnar og hvað veldur þeim. INCIBE, netöryggisstofnun Spánar, rannsakar meðal annars hvort að töluvárás kunni að vera orsökin.

Truflanirnar eru sagðar hafa raskað fjarskiptum og flugvallar- og lestarsamgöngum. Reuters-fréttastofan vitnar í spænskar útvarpsstöðvar sem fullyrða að neðanjarðarlestarkerfið í spænsku höfuðborginni Madrid hafi verið rýmt og að umferðaöngþveiti hafi myndast á götum borgarinnar eftir að umferðarljós slökknuðu.

Á flugvellinum í Lissabon í Portúgal er ófremdarástand sagt ríkja þar sem þúsundir farþega setja föst. Portúgölsk stjórnvöld hafa heldur engar skýringar á ástandinu.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×