Innlent

Svik við al­menning, kerfið og sam­starfs­fólk

Árni Sæberg skrifar
Þorbjörg Sigríður segir afstöðu sína til málsins skýra.
Þorbjörg Sigríður segir afstöðu sína til málsins skýra. Vísir/Anton

Dómsmálaráðherra segist upplifa framferði forsvarsmanna PPP, sem lýst var í Ríkissjónvarpinu í gær, sem svik. Svik við almenning, kerfið og samstarfsmenn í réttarkerfinu.

Ríkisútvarpið greindi frá því í gærkvöldi að gögn úr símahlerunum í tengslum við rannsóknir sérstaks saksóknara hefðu verið í höndum eigenda fyrirtækis fyrrverandi lögreglumanna. Gögn sem aldrei hafi átt að fara í dreifingu. Fyrirtækið, PPP, hefði reynt að selja þjónustu sína á grundvelli „þekkingar á afbrotaheiminum“.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, beindi fyrirspurn að Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra um málið í opnum fyrirspurnartíma í þinginu í morgun. Hvað henni þætti um það og hvort hún teldi málið benda til þess að réttaröryggi, persónuvernd og traust til lögreglu væru í hættu.

Lítur málið alvarlegum augum

Þorbjörg Sigríður þakkaði Ingibjörgu fyrir fyrirspurnina en sagðist þegar hafa svarað henni. Hún vildi þó gjarnan vilja endurtaka svarið.

„Ég lít þetta mál mjög alvarlegum augum. Ég lít á þetta sem svik þeirra sem að þessu máli stóðu. Svik við það fólk sem um ræðir. Þetta eru svik við kerfið, þetta eru svik við samstarfsfólk, sem vinnur af heilindum innan kerfisins við að vinna að mikilvægum verkefnum í þágu samfélagsins alls og þetta eru svik við allan almenning.“

Málið liggi ekki ljóst fyrir en það sé þó nægilega upplýst til þess að unnt sé að fullyrða þetta

Verkefni ráðherra að tryggja upplýsingaöryggi

Þorbjörg Sigríður segir að verkefni hennar sem dómsmálaráðherra sé fyrst og fremst að vera með hugann við það alla daga að tryggja öryggi fólksins í landinu.

„Það varðar líka að við tryggjum öryggi upplýsinga um fólk og mitt verkefni er að verja og tryggja traust almennings til réttarkerfisins. Það sorglega við svona mál er að þegar eitthvað af þessum toga kemur upp, þá er það allt kerfið sem tekur reikninginn. Ég veit og átta mig á því að það verður mitt verkefni, meðal annarra, að svara fyrir þetta.“

Málið til skoðunar hjá nefndinni og Ríkissaksóknara

Hún segir að það sem blasi við henni sé að gögn hafi komist í hendur manna sem ekki hafi átt að hafa þau í höndum og að þau hafi verið hagnýtt með einhverjum hætti.

„Til viðbótar vil ég árétta að málið er til skoðunar hjá Nefnd um eftirlit með lögreglu og það er til skoðunar hjá embætti Ríkissaksóknara. Það eru þær stofnanir sem fara með málið sem stendur en afstaða mín er algerlega skýr um alvarleika málsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×