Skoðun

Tala ekki um lokamarkmiðið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Dagur Evrópusambandsins var í gær 9. maí en þann dag árið 1950 flutti Robert Schuman, þáverandi utanríkisráðherra Frakklands, ávarp sem markaði upphafið að sambandinu eins og við þekkjum það í dag. Þar kallaði Schuman eftir því að kola- og stálframleiðsla Evrópuríkja yrði sett undir eina yfirþjóðlega stjórn sem yrði fyrsta skrefið á þeirri vegferð að til yrði að lokum evrópskt sambandsríki. Síðan hafa jafnt og þétt verið tekin sífellt fleiri skref í þá átt.

„Sameiginleg kola- og stálframleiðslu mun þegar í stað að leggja sameiginlegan grunn að efnahagsþróun sem fyrsta skrefið í átt að evrópsku sambandsríki,“ segir þannig í ávarpinu. Forystumenn í röðum hérlendra Evrópusambandssinna minnast dagsins árlega og skírskota til Schuman-ávarpsins og var gærdagurinn þar engin undantekning. Hins vegar minnast þeir iðulega einungis á fyrsta skrefið í þeim efnum en ekki lokamarkmiðsins. Það tala þeir ekki um.

Meðal þess sem þróun Evrópusambandsins í átt að einu sambandsríki hefur falið í sér er að vægi ríkja þess við ákvarðanatökur hefur í vaxandi mæli tekið mið af íbúafjölda þeirra í stað þess að þau sitji jafnfætis við sama borð eins og allajafna þegar um alþjóðastofnanir er að ræða. Eitt ríki, eitt atkvæði. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði vægi landsins á þingi þess á við hálfan þingmann á Alþingi og í ráðherraráðinu einungis á við 5% af alþingismanni.

Væntanlega segir það sig sjálft að við slíkar aðstæður hefðu fulltrúar íslenzkra kjósenda ekki mikið um málin að segja. Þar á meðal til dæmis um sjávarútvegs- og orkumál og langflesta aðra málaflokka. Við yrðum eftirleiðis að vona að ákvarðanir sem teknar væru á vettvangi Evrópusambandsins hentuðu okkar hagsmunum jafnvel þó þær yrðu eðli málsins samkvæmt seint teknar með þá í huga. Við værum einfaldlega ekki lengur við stýrið í þeim efnum.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál) og heldur úti vefnum Stjórnmálin.is.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×