Handbolti

Sýning hjá Viktori Gísla í stór­sigri Wisla Plock

Smári Jökull Jónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson spilaði frábærlega fyrir Wisla Plock í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson spilaði frábærlega fyrir Wisla Plock í kvöld. Vísir/EPA

Viktor Gísli Hallgrímsson átti sannkallaðan stórleik fyrir Wisla Plock í úrslitakeppni pólska handboltans í dag. Wisla er komið í forystu í einvígi sínu í undanúrslitum.

Greint var frá því í vikunni að landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson myndi ganga til liðs við stórlið Barcelona á Spáni en hann hefur leikið með Wisla Plock síðasta árið.

Fréttirnar af félagaskiptunum virðast hafa gefið Viktori Gísla aukinn kraft því hann átti magnaðan leik fyrir Wisla Plock sem mætti Zabrze í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum pólsku deildarinnar í dag.

Viktor Gísli hreinlega lokaði markinu í fyrri hálfleiknum, hélt hreinu fyrstu sex mínútur leiksins og átti hverja vörsluna á fætur annarri. Hann lauk leik í fyrri hálfleiknum með tólf varin skot og aðeins átta mörk fengin á sig sem gerir 60% markvörslu. Ótrúleg tölfræði og Viktor Gísli maðurinn á bakvið 20-8 forystu Wisla Plock í hálfleik.

Í síðari hálfleik sat Viktor Gísli á bekknum enda sigur Wisla nánast ráðinn. Lokatölur í leiknum 40-23 og Wisla Plock því komið í forystu í einvíginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×