Innlent

Fjór­tán ára piltur grunaður um að leggja hníf að hálsi annars við Hvaleyrarvatn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Atvik málsins áttu sér stað við Hvaleyrarvatn.
Atvik málsins áttu sér stað við Hvaleyrarvatn. Vísir/Arnar

Ungur maður, á átjánda aldursári, var ásamt vinum sínum við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði um hálftíuleytið í gær áður en hann varð fyrir ofbeldi af hálfu ósakhæfs pilts.

Svona blasir mál við lögreglu sem var til umfjöllunar í dagbók lögreglu í morgun. Þar sagði að þrír ungir væru grunaðir um að ráðast á einn með spörkum og höggum, og honum veri ógnað með hníf. 

Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir að nú sé talið að einn árásarmaður hafi verið að verki.

Grunaður árásarmaður er fjórtán ára gamall, og því ósakhæfur. Hann mun hafa komið á vespu á vettvang, og verið á staðnum ásamt tveimur öðrum.

Í fyrstu tilkynningu til lögreglu hafi verið talað um að hann hafi sett hníf að hálsi þess sem varð fyrir árásinni, og síðan farið í burtu.

Seinna var greint frá því að grunaði árásarmaðurinn hefði tekið hinn pilltinn niður og kýlt og sparkað í hann á meðan hann lá í jörðinni.

„Þolandinn var náttúrulega í miklu sjokki eftir þetta allt saman,“ sagði Skúli, en pilturinn sem varð fyrir árásinni var fluttur á slysadeild. Hann mun hafa verið með áverka á hendi.

Lögreglan hafi haft upp á grunuðum árásarmanni og hefur barnavernd og forráðamenn verið kallaðir til.

Óljóst sé hvað gerðist milli piltanna tveggja, en þeim hafi eitthvað lent saman.

Mikilvægt að vinda ofan af þessari þróun

Að sögn Skúla er málið í fullri rannsókn.

„Þetta er alvarlegt mál þegar svona gerist. Það þarf að vinda ofan af þessari þróun. Við erum auðvitað í mikilli vinnu allt samfélagið í að reyna að snúa við þessari þróun,“ segir hann.

„Það er svo hættulegt að vera með þessi beittu vopn á sér sem hnífarnir eru.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×