Skoðun

Grinda­vík lifir

Kristín María Birgisdóttir og Dagmar Valsdóttir skrifa

Grindavík stendur enn, með hjarta sem slær af ómælanlegum lífsvilja og seiglu. Þrátt fyrir að eldstöðin andi djúpt og götur bæjarins minni óneitanlega á senu úr kvikmynd. Kvikmynd sem enginn óskaði sér að leika í.

Í Grindavík býr ótrúlegur lífskraftur – þar er samfélag sem hvorki hefur gefist upp né forðast áskoranirnar. Samfélag sem ætlar að halda áfram með bros á vör og von í hjarta.

Já Grindavík lifir og þú getur verið hluti af því að svo verði áfram.

Nú þegar sólin hækkar á lofti og sumarið bankar á dyrnar, býðst þér einstakt tækifæri. Tækifæri að vera hluti af endurreisn, nærveru og samhug sem skilar raunverulegum breytingum. Veitingastaðir hafa opnað dyr sínar á ný, gististaðir taka á móti gestum með hlýju og íbúar eru tilbúnir að fagna sumrinu með þér.

Ef Grindavík hefur nokkurn tíma kallað á þig, þá er það núna. Tjaldsvæðið opnaði á föstudaginn var og með því kviknaði ný von. Þetta er tíminn til að trúa á bjartari daga. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér – en við vitum að núna er rétti tíminn, sumarið 2025 til að heimsækja Grindavík.

Á visitgrindavik.is finnur þú allt það helsta – afþreyingu, upplifanir og veitingastaði sem bíða eftir að fá þig í heimsókn. Grindavík státar af einum vinsælasta golfvelli landsins, Húsatóftavelli, þar sem hraun og sjór mætast í stórbrotnu landslagi. Völlurinn dregur að sér kylfinga alls staðar að vegna náttúrufegurðar og krefjandi brauta.

Í sumar verður sjómannahelgin haldin með hátíðardagskrá í fyrsta sinn frá því bærinn var rýmdur. Loks endurfundir sem við íbúar höfum lengi beðið eftir.

Ferðin þín er meira en heimsókn – hún er þátttaka í endurreisn samfélags sem gefst ekki upp.

Við bíðum eftir þér!

Höfundar eru hluti af öflugu liði ferðaþjónustuaðila í Grindavík.




Skoðun

Sjá meira


×