Skoðun

Að vinda ofan af gullhúðun

Berglind Harpa Svavarsdóttir skrifar

Ísland hefur ítrekað gengið lengra en nauðsynlegt er við innleiðingu reglna frá Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Þetta fyrirkomulag, sem oft er kallað gullhúðun eða blýhúðun, hefur allajafna í för með sér aukið og íþyngjandi flækjustig, hærri kostnað og meiri óvissu fyrir einstaklinga, sveitarfélög og fyrirtæki hér á landi.

Reglur sem ætlað er að stuðla að samræmingu og einfaldleika á innri markaði Evrópu verða hér oft og tíðum að mikilli byrði fyrir allt okkar samfélag.

Árið 2024 skilaði starfshópur á vegum utanríkisráðuneytisins fimm skýrum tillögum til að vinda ofan af þessari þróun. Þar er meðal annars lögð áhersla á að þingsköpum Alþingis verði breytt þannig að meginreglan verði sú að ekki sé gengið lengra en lágmarkskröfur EES krefjast, nema skýr rök liggi fyrir.

Tilvalið væri að nýta aðstoð gervigreindar til að greina snögglega hvar hefur verið farið fram með íþyngjandi hætti umfram lágmarkskröfur EES gerða – líkt og fyrrverandi háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hafði í hyggju á síðasta kjörtímabili.

Ég hef sem varaþingmaður lagt fram fyrirspurn til utanríkisráðherra hvað þetta varðar, annars vegar um stefnu í afhúðun regluverks umfram EES gerðir og stefnumótandi vinnubrögð hér eftir á Alþingi Íslendinga við yfirfærslu EES gerða á okkar samfélag.

Tími er kominn til að létta þessari ósanngjörnu byrði af fólki, fyrirtækjum og stjórnsýslunni.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×