Erlent

Evrópu­ríkjum leyft að nota kol­efni­sjöfnun er­lendis í fyrsta skipti

Kjartan Kjartansson skrifar
Woepke Hoekstra, loftslagsstjóri Evrópusambandsins, þegar hann kynnti áform framkvæmdastjórnarinnar um níutíu prósent samdrátt gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2040.
Woepke Hoekstra, loftslagsstjóri Evrópusambandsins, þegar hann kynnti áform framkvæmdastjórnarinnar um níutíu prósent samdrátt gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2040. Vísir/EPA

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði til nýtt markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 90 prósent fyrir árið 2040 í dag. Umdeilt ákvæði um að ríki geti greitt fyrir kolefnisjöfnun í þróunarríkjum til þess að ná markmiðum sínum er í fyrsta skipti að finna í áætluninni.

Hart hefur verið tekist á hvort að ríki ættu að fá að nota alþjóðlegar kolefnisjöfnunareiningar í stað þess að draga úr eigin losun til þess að standast samevrópskar skuldbindingar í loftslagsmálum. Þjóðverjar eru á meðal þeirra þjóða Evrópusambandsins sem höfðu farið fram á að fá að nota kolefnisjöfnunareiningar upp í loftslagsmarkmiðin.

Framkvæmdastjórnin leggur þar til nú í fyrsta skipti í viðleitni til þess að auka líkurnar á að aðildarríkin fallist á nýja og metnaðarfyllra losunarmarkmiðið. Vaxandi andspyrna hefur verið við loftslagsaðgerðir ESB á meðal sumra aðildarríkjanna.

ESB stefnir á kolefnishlutleysi fyrir miðja öldina en núgildandi markmið snýst um að ná 55 prósent samdrætti fyrir árið 2030. Ísland og Noregur taka þátt í því sameiginlega markmiði.

Umhverfisverndarsamtök eru foxill yfir því að leyfa eigi notkun alþjóðlegra kolefnisjöfnunareininga, að sögn breska blaðsins The Guardian. Vísindamenn hafa sömuleiðis gagnrýnt að erfitt sé að sannreyna árangur af þeirri kolefnisjöfnun og hætta sé á að ríki taki heiður af samdrætti í losun sem hefði átt sér stað án atbeina þeirra.

Vísindaráðgjafarráð Evrópusambandsins sjálfs mælti gegn því að notkun kolefnisjöfnunareininga yrði leyfð. Það mælti einnig með að sambandið setti stefnuna á enn meiri samdrátt í losun, allt að 95 prósent fyrir árið 2040 borið saman við losun ársins 1990.

Woepke Hoekstra, loftslagsstjóri ESB, sagðist sannfærður um að hægt verði að nota kolefnisjöfnunareininga á skynsamlegan hátt þar sem hægt sé að staðfesta árangur af þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×