Innlent

Ekið á öku­mann rafmagnshlaupahjóls og gámur á hliðina

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og nótt.
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Einstaklingur á rafmagnshlaupahjóli slasaðist lítillega þegar ekið var á hann í gær en ökumaður bifreiðarinnar lét sig hverfa. Lögregla hafði uppi á honum í gærkvöldi.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir verkefni næturinnar.

Lögreglu barst einnig tilkynning um umferðaróhapp í Mosfellsbæ en þar hafði gámur farið á hliðina á miðjum vegi. Lögregluskýrsla var rituð vegna ófullnægjandi frágangs á farmi.

Annað umferðarslys átti sér stað í póstnúmerinu 113 en þar var einn handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum. Var hann fluttur á lögreglustöð til blóðsýnatöku og vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að taka af honum skýrslu.

Fleiri voru stöðvaðir í umferðinni grunaðir um akstur undir áhrifum og þá hafði lögregla einnig afskipti af nokkrum einstaklingum í miðbænum sem voru til vandræða. Einn var sofandi í sameign, annar óvelkomin á hóteli og tveir til vandræða á bar.

Ein tilkynning barst um ölvaðan einstakling í Kópavogi sem var sagður hafa dottið utandyra. Sá reyndist þó geta staðið upp sjálfur og gekk sína leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×