Innlent

Ísbjarnareftirlit á Vest­fjörðum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Ísbjörn á veiðum á hafís norður af Svalbarða. 
Ísbjörn á veiðum á hafís norður af Svalbarða.  Vísir/Getty

Lögreglan á Vestfjörðum og Landhelgisgæslan eru nú í ísbjarnareftirliti, einkum yfir Hornströndum vegna myndbands sem lögreglunni barst í gær.

Umrætt myndband birtist á samfélagsmiðlum og er það tekið um borð í íslensku fiskiskipi og virtist sýna ísbjörn á ísbreiðu um það bil fimmtíu sjómílur út af Straumnesi á Hornströndum.

Myndbandið er þriggja vikna gamalt, en til öryggis fer Landhelgisgæslan í eftirlitsflug á næstu dögum.

Hér má sjá umrætt myndband.

Þá segir að lögreglan á Vestfjörðum hafi gert landvörðum í Hornstrandafriðlandinu og einnig fyrirsvarsfólki ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu viðvart, með hvatningu um að vera á varðbergi.

„Lögreglunni á Vestfjörðum þykir ástæða til að vekja athygli almennings á þessum atburði og er hvatt til þess að fólk sé á varðbergi og sýni fulla aðgát en eins og þekkt er geta ísbirnir synt langar leiðir og óvíst um tildrög þess hvítabjarnar sem sást á ísbreiðunni,“ segir í tilkynningunni.

„Mikilvægt er að tilkynnt sé strax til yfirvalda, Landhelgisgæslunnar eða lögreglunnar ef sést er til hvítabjarna þannig að hægt sé að tryggja öryggi fólks.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×