Innlent

Boðar sumar­veður inn í septem­ber

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sigurður Þ. Ragnarsson, betur þekktur sem Siggi stormur.
Sigurður Þ. Ragnarsson, betur þekktur sem Siggi stormur. Vísir/Vilhelm

Blíðviðri er í kortunum á suðvesturhluta landsins. Búist er við miklu sólskini í dag og á morgun, þótt einhverjar síðdegisskúrir gætu látið á sér kræla. Veðurfræðingur segir spána afar hagstæða á höfuðborgarsvæðinu, og á Suður- og Vesturlandi.

„Þetta svæði sker sig nokkuð úr, einkum næstu tvo, þrjá dagana. Síðan eru horfur á að það komi lægð síðar í vikunni og aðeins vökvi blómin fyrir okkur. Svo tekur á ný við mjög gott veður á þessu sama svæði,“ suðvesturhornið, segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur.

Þegar vel viðrar á suðvesturhorninu flykkist fólk iðulega á Austurvöll í Reykjavík til að njóta blíðunnar. Þá er ekki alvitlaus hugmynd að taka stóla með.Vísir/Anton Brink

Búast megi við meira sumarveðri í næstu viku.

„Og þá sérstaklega kannski um sunnanvert landið því hann liggur í austan og norðaustanáttum. Það eru afskaplega hagstæðar áttir fyrir suðurhluta landsins. Það sem maður skoðar þegar maður fer að meta haustlægðirnar, það er streymi á köldu lofti til suðurs með vesturströnd Grænlands. Það er ekki að dreifa úr sér svo neinu nemi, þannig að það eru engar haustlægðir í fæðingu um sinn. Við sjáum hvað setur með það, en allavega er þetta mjög hagfellt eins og þetta lítur út núna.“

Veðrið verði milt og gott, þrátt fyrir smá rigningu um miðja viku.

„Við erum að tala um hita sem verður á bilinu tíu til sextán, sautján stig þegar hlýjast verður, og þetta verður eitthvað á áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×