Erlent

Vinna að lista yfir vini og sam­starfs­menn Epstein

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konurnar lýstu reynslu sinni fyrir utan þinghúsið í gær.
Konurnar lýstu reynslu sinni fyrir utan þinghúsið í gær. Getty/Chip Somodevilla

Hópur kvenna sem varð fyrir kynferðisofbeldi af hálfu athafnamannsins Jeffrey Epstein vinnur nú að lista yfir vini hans og kunningja, og aðra sem hann umgekkst mikið.

Konurnar níu efndu til tveggja tíma blaðamannafundar fyrir utan þinghúsið í Washington D.C. í gær og kölluðu eftir birtingu allra opinberra gagna um Epstein. Þar greindu þær einnig frá ofbeldinu sem þær urðu fyrir af hálfu Epstein.

Ein kvennanna, Lisa Phillips, sagði að listinn yrði unnin „af þolendum, fyrir þolendur“ en hvatti dómsmálaráðuneytið til að birta öll gögn í þeim rannsóknum sem beinst hefðu gegn Epstein.

Lögmaður kvennanna sagði þær óttast hefndaraðgerðir.

Marina Lacerda, sem steig fram opinberlega í fyrsta sinn í gær, sagði að hún hefði „starfað“ fyrir Epstein frá því að hún var 14 ára og þar til hún varð 17 ára. Þá hefði honum þótt hún orðin „of gömul“. Hún hefði í fyrstu fengið greidda mikla peninga fyrir að nudda Epstein en „draumastarfið“ hefði fljótt orðið að martröð.

Chauntae Davies sagði Epstein hafa grobbað sig af tengslum sínum við Donald Trump Bandaríkjaforseta en enginn þolenda Epstein hefur sakað Trump um neitt misjafnt. Þeir hafa hins vegar harmað að málið hafi verið notað í pólitískum tilgangi.

Tveir fulltrúadeildarþingmenn, annar repúblikani og hinn demókrati, vinna að því að ná saman meirihluta um að skikka dómsmálaráðuneytið til að birta öll gögn í málinu. Sex repúblikanar munu þurfa að styðja tillöguna eigi hún að ná fram að ganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×