Erlent

Svíar saka Rússa um auknar truflanir í staðsetningarbúnaði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Truflanirnar hafa haft áhrif bæði á flug- og skipaumferð.
Truflanirnar hafa haft áhrif bæði á flug- og skipaumferð.

Yfirvöld í Svíþjóð hafa sakað Rússa um að standa að baki verulegri fjölgun atvika þar sem staðsetningarbúnaður er gerður óvirkur. Þau séu að verða daglegur viðburður.

Samkvæmt nýrri skýrslu samgönguyfirvalda í Svíþjóð (STA) hafa 733 tilvik verið skráð það sem af er árinu 2025 en þau voru samtals 55 árið 2023. Um er að ræða flugumferð yfir Eystrasalti og einnig skipaumferð.

Fleiri Evrópuríki hafa sakað Rússa um að trufla staðsetningarbúnað samgöngufarartækja og þá var slíkur búnaður gerður óvirkur á dögunum í vél sem flutti Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

BBC hefur eftir Andreas Holmgren, yfirmanni hjá STA að málið sé grafalvarlegt og ógnaði almennum flugsamgöngum. Þá virtist áhrifasvæðið hafa stækkað.

Heildarfjöldi atvika á Eystrasaltsvæðinu er sagður nema tugum þúsunda síðustu ár en fulltrúar Svíþjóðar, Finnlands, Póllands, Eistlands, Lettlands og Litháen tóku málið upp á fundi ráðs Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í byrjun sumar.

Ráðið lýsti yfir áhyggjum vegna stöðunnar og krafðist þess að Rússar létu af inngripum sínum og virtu alþjóðlega samninga. Atvikum virðist hins vegar hafa fjölgað síðan.

Stjórnvöld í Moskvu hafa neitað sök og ekki hefur tekist að sanna með óyggjandi hætti að þau standi að baki truflununum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×