Handbolti

Sig­valdi marka­hæstur í öruggum sigri Kolstad

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sigvaldi Björn var markahæstur hjá Kolstad í dag
Sigvaldi Björn var markahæstur hjá Kolstad í dag EPA-EFE/Piotr Polak

Íslendingaliðið Kolstad vann öruggan 31-28 sigur gegn Dinamo Búkarest í annarri umferð Meistaradeildarinnar. Janus Daði Smárason og félagra í Pick Szeged fögnuðu á sama tíma 36-31 sigri á útivelli gegn GOG.

Kolstad tapaði illa á útivelli í fyrsta leik tímabilsins en sýndi styrk sinn á heimavelli í kvöld, skoraði fyrstu fjögur mörk leiksins og leit aldrei um öxl. Átta marka forysta náðist í seinni hálfleik, gestirnir minnkuðu síðan muninn undir lokin en voru aldrei nálægt því að jafna. Lokatölur 31-28.

Hægri hornamaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson var markahæstur hjá Kolstad með sex mörk úr átta skotum. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar. Eldri bróðir hans, Arnór Snær Óskarsson, skoraði síðan tvö mörk á lokamínútunum.

Pick Szeged þurfti að hafa meira fyrir sínum sigri en var skrefinu á undan GOG í Danmörku. Heimamenn náðu að minnka muninn niður í tvö mörk og gera lokamínúturnar spennandi en komust ekki nær. Lokatölur 31-36.

Janus Daði Smárason átti fínan leik, skoraði fimm mörk úr sex skotum og gaf tvær stoðsendingar.

Ungverska liðið fagnaði því sínum fyrsta sigri, eftir naumt tap gegn Wisla Plock í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×