Körfubolti

Stór­sigur Grinda­víkur en WNBA-konan hætti fyrr en aðrar

Sindri Sverrisson skrifar
Isabella Ósk Sigurðardóttir var að vanda áberandi í liði Grindavíkur.
Isabella Ósk Sigurðardóttir var að vanda áberandi í liði Grindavíkur. vísir/Anton

Grindavík átti ekki í neinum vandræðum með nýliða Ármanns í langþráðum heimaleik sínum í HS Orku-höllinni í kvöld, í Bónus-deild kvenna í körfubolta. Niðurstaðan varð 27 stiga sigur, 86-59.

Grindavíkurkonur höfðu ekki spilað heima í Grindavík í tæp tvö ár og virtust njóta þess í botn í kvöld að vera mættar þangað aftur. Liðið hefur nú unnið tvo örugga sigra í fyrstu umferðum deildarinnar en Ármann virðist eiga afar erfiðan vetur fyrir höndum og er stigalaus.

Grindavík frumsýndi hina sænsku Farhiyu Abdi, sem á sínum tíma lék í WNBA-deildinni í Bandaríkjunum, en hún virðist þó eiga nokkuð í land með að komast í sitt besta form. Abdi skoraði ellefu stig í leiknum, tók fjögur fráköst og gaf þrjár stoðsendingar, en tapaði líka boltanum fimm sinnum og fékk sína fimmtu villu um miðjan fjórða leikhluta.

Þá var sigur Grindavíkur hins vegar löngu orðinn ljós en liðið var 26-13 yfir eftir fyrsta leikhluta og 48-27 yfir í hálfleik.

Abby Beeman var stigahæst eins og í sigrinum gegn Hamri/Þór í fyrstu umferð, með 22 stig, níu fráköst og níu stoðsendingar. Isabella Ósk Sigurðardóttir og Ellen Nyström skoruðu 15 stig hvor og tók Isabella auk þess heil 12 fráköst.

Hjá Ármenningum var Jónína Þórdís Karlsdóttir atkvæðamest með 20 stig og fjögur fráköst, og Khiana Johnson skoraði 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×