Innlent

Lög­reglan fjar­lægði „fá­tæktar­gildru“ ÖBÍ

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan vildi ekki sjá gildru fyrir framan Alþingishúsið.
Lögreglan vildi ekki sjá gildru fyrir framan Alþingishúsið. Vísir/Anton Brink

ÖBÍ réttindasamtök komu stærðarinnar „fátækargildru“ fyrir í morgun fyrir framan Alþingi, til þess að vekja athygli á alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt. Gjörningurinn varði ekki lengi þar sem laganna verðir mættu á vettvang og fjarlægðu „fátæktargildruna“.

Í fréttatilkynningu frá ÖBÍ sem barst í morgun segir að með gjörningnum vilji samtökin leggja áherslu á að fátækt sé veruleiki margra á Íslandi. Þriðjungur örorkulífeyristaka búi við fátækt, sem sé engri manneskju bjóðandi og brjóti í bága við grundvallarmannréttindi.

Haft er eftir Ölmu Ýr Ingólfsdóttur, formanni ÖBÍ, að fátækt sé algengari en fólk heldur. 

Alma Ýr Ingólfsdóttir er formaður ÖBÍ.Vísir/Anton Brink

„Oft þarf ekki mikið til að fólk falli í fátæktargildruna. Það kannast alltof margir við að lenda í óvæntum útgjöldum, eins og að bíllinn bili og fólk eigi ekki nóg milli handanna til að láta gera við hann. Þá er gripið í yfirdráttinn sem þarf að greiða háa vexti af og er erfitt að greiða niður þegar afgangurinn um mánaðamótin er nú þegar enginn.“

Fjörutíu prósent sleppi jólagjöfum

Ljóst sé að vandinn sé nú þegar umfangsmikill. Samkvæmt rannsókn sem Varða, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, vann fyrir ÖBÍ búi um 33 prósent örorkulífeyristaka við fátækt. Þá hafi 39,4 prósent neyðst til að sleppa afmælis- eða jólagjöfum og 68,5 prósent ráði ekki við óvænt 80.000 króna útgjöld nema með skuldsetningu. 

„Þetta þarf ekki að vera svona. Það er vel hægt að útrýma fátækt á Íslandi með markvissum aðgerðum.“

ÖBÍ leggi fram markvissar tillögur sem beint er til stjórnvalda, til að minnka hættuna á að fólk lendi í fátæktargildrunni: 

„Tryggja þarf öryggi í húsnæðismálum og taka á hækkandi húsnæðis og leigukostnaði, veita þarf aðgang að gjaldfrjálsri grunnþjónustu og svo þarf að sjálfsögðu að hækka lífeyri og lægstu laun svo fólk geti lifað með reisn,“ er loks haft eftir Ölmu.

Gjörningnum sópað burt

Ljósmyndari Vísis var við Austurvöll í morgun þegar lögregluþjónar mættu á vettvang og fyrirskipuðu að „fátæktargildran“ yrði fjarlægð.

Gildrunni var vippað upp á vörubíl.Vísir/Anton Brink

Það hefur nú verið gert og það á kostnað ÖBÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×