Handbolti

Framarar töpuðu aftur á heima­velli í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kárason skorar eitt af mörkum sínum í kvöld.
Rúnar Kárason skorar eitt af mörkum sínum í kvöld. Vísir/Anton Brink

Íslandsmeistarar Fram urðu að sætta sig við sex marka tap á móti norska félaginu Elverum í Evrópudeildinni í gær.

Elverum mætti í Lambhagahöllina í Úlfarsárdal og vann 35-29 sigur eftir að staðan var jöfn í hálfleik. Norðmennirnir unnu síðari hálfleikinn 16-10.

Framliðið hefur þar með tapað tveimur fyrstu leikjunum í riðlinum en þeir voru báðir á heimavelli liðsins. Þetta var hins vegar fyrsti sigurleikur norska liðsins.

Rúnar Kárason var atkvæðamestur í Framliðinu með sjö mörk en Ívar Logi Styrmisson skoraði sex mörk þar af fimm þeirra í fyrri hálfleik. Dagur Fannar Möller var síðan með fimm mörk.

Framarar byrjuðu ekki vel og lentu meðal annars fjórum mörkum undir um miðjan fyrri hálfleik, 6-10.

Framliðið gerði vel í að vinna sig aftur inn í leikinn og var búið að jafna í 14-14 eftir 8-4 sprett.

Þeir byggðu ofan á þetta og komust yfir í 17-16 en staðan var jöfn í hálfleik, 19-19. Framarar réðu illa við Péter Lukács sem skoraði átta mörk í fyrri hálfleiknum.

Norska liðið var hins vegar sterkara í seinni hálfleiknum og tryggði sér þá nokkuð sannfærandi sex marka sigur.

Þorsteinn Leó Gunnarsson og félagar í portúgalska félaginu Porto unnu þrettán marka heimasigur á svissneska liðinu Luzern, 44-31. Þorsteinn Leó skoraði tvö mörk.

Arnar Freyr Arnarsson var með tvö mörk fyrir MT Melsungen í eins marks útisigri í Íslendingaslag á móti Karlskrona, 26-25. Arnór Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Karlskrona.

Stiven Tobar Valencia skoraði þrjú mörk fyrir portúgalska félagið Benfica í 38-25 sigri á FTC-Green Collect.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×