Skoðun

Tóm­stunda­menntun sem með­ferðarúrræði

Brynja Dögg Árnadóttir skrifar

Á undanförnum árum hefur áhættuhegðun barna og unglinga aukist verulega. Börn allt niður í 12 ára hafa leitað til Foreldrahúss vegna áfengis- og vímuefnaneyslu og fjöldi barna og unglinga sem leita þangað fer hækkandi með hverju ári. Úrræði fyrir börn og unglinga sem glíma við fíknivanda eru annað hvort vistun á meðferðarheimili eða MST fjölkerfameðferð. Þessi úrræði geta vel virkað en mér finnst vanta úrræði sem stuðlar að aukinni þekkingu og færni unglinga í að nýta frítímann sinn á jákvæðan og uppbyggilegan máta.

Þeir sem þekkja lítið til tómstundafræðinnar velta því eflaust fyrir sér hvernig nýtist tómstundamenntun þessum hópi? Svarið er einfalt, áhættuhegðun barna og unglinga á sér stað í frítíma þeirra og því getur tómstundamenntun gagnast þessum hópi.

Megin markmið tómstundamenntunar er að kenna einstaklingum að nýta frítíma sinn með þeim hætti að hann stuðli að aukinni velferð og auki lífsgæði. Þar sem tómstundafærni er ekki meðfæddur hæfileiki er tómstundamenntun árangursrík leið til að stuðla að aukinni vitund um mikilvægi tómstunda og þá sérstaklega fyrir áhættuhópa.

Þótt að meðferðarheimili barna og unglinga hafi vissulega jákvæðar afleiðingar í för með sér á meðan dvöl stendur, en hvað gerist þegar þau fá að koma aftur heim? Ef að þau fá enga fræðslu varðandi nýtingu frítímans og hvaða afleiðingar slæm nýting frítímans hefur í för með sér, bæði á þau sem einstaklinga og fólkið í þeirra nánasta umhverfi eru allar líkur á því að þegar meðferðarúrræði lýkur þá leiðast þau aftur í sama far. Að mínu mati er þetta nauðsynleg viðbót í öll meðferðarúrræði hér á landi vegna þess að markmiðið er að auka tómstundavitund og stuðla að því að einstaklingurinn færi sig úr neikvæðum tómstundum yfir í jákvæðar tómstundir.

Höfundur er nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×