Skoðun

Út­gerðar­menn vaknið, virkjum nýjustu vísindi

Svanur Guðmundsson skrifar

Útgerðin verður að vakna. Það er ekki lengur hægt að sitja á hliðarlínunni og horfa upp á stofnmat sem byggir á aðferðum síðustu aldar, þar sem hvorki hvalir né umhverfisþættir eru inni í stofnmatsútreikningum. Þorskur er að horast, nýting og framlegð lækkar á sama tíma sem óvissan í ráðgjöf fer vaxandi. Eigi að síður hefur útgerðin látið sér það lynda að atvinnugrein, sem aflar hundruð milljarða, sé stjórnað með tækni frá síðustu öld. Það er óskiljanlegt og í raun óverjandi.

Hvalir éta margfalt meira af fiski en veitt er af mönnum, fæðukeðjan tekur breytingum og veiðisvæði færast til. Þrátt fyrir þetta byggist ráðgjöf enn á líkani sem gerir ráð fyrir „stofnmati án afráns“. Þótt menn telja sig vinna að varúð þá er unnið í blindni. Afleiðingar þessarar blindni lenda fyrst og síðast á útgerðinni sjálfri, sjómönnunum og byggðunum sem reiða sig á afkomu greinarinnar.

Útgerðin á að vera leiðandi afl í gagnadrifinni veiðistýringu og vísindalegri vistkerfisnálgun en ekki aukaleikari í eigin atvinnugrein. Útgerðin situr á gögnum, fjármagni og hagsmunum sem eru miklu meiri en finnst hjá nokkurri opinberri stofnun. Þess vegna er það útgerðarinnar að krefjast betri vísinda, nútímalegri stofnmatslíkana og formlegrar innleiðingar rauntímagagna við veiðiráðgjöf. Margt af þessu geta þeir gert sjálfir ef vilji er til.

Ef útgerðin stígur ekki fram núna mun enginn gera það fyrir hana. Þá verður haldið áfram að stýra í myrkri þar til reksturinn strandar á skeri. Það er kominn tími til að útgerðin taki ábyrgð, krefjist breytinga og hefjist handa. Strax.

Höfundur er forstjóri Bláa hagkerfisins ehf.




Skoðun

Sjá meira


×