Erlent

Segir Trump hafa per­sónu­leika alkó­hól­ista

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Susie Wiles.
Donald Trump og Susie Wiles. AP/Evan Vucci

Susie Wiles, starfsmannastjóri Donalds Trump í Hvíta húsinu, segir að grein sem Vanity Fair birti í dag og byggir á þó nokkrum viðtölum sem hún fór í á árinu, hafi verið óheiðarlega framreidd. Í greininni fer hún ófögrum orðum um ýmsa í ríkisstjórn Trumps og bandamenn eins og JD Vance, Russell Vougth, Pam Bondi og Elon Musk. Þá líkti hún Trump sjálfum við alkóhólista.

Wiles spilaði stóra rullu í vel heppnuðu forsetaframboði Trumps í fyrra. Er vinur fjölskyldu forsetans og er talin nokkuð áhrifamikil innan Hvíta hússins. Trump kallaði hana nýverið Susie Trump.

Í heildina tók rithöfundurinn Chris Whipple, sem hefur skrifað þekkta bók um starfsmannastjóra Hvíta hússins gegnum árin, ellefu viðtöl við Wiles og var í morgun birt grein í tveimur hlutum, sem unnin var upp úr þeim viðtölum.

Í greininni er haft eftir Wiles að Trump sé að nota réttarkerfið til að hefna sín á pólitískum andstæðingum sínum, eins og James Comey og Letitia James. Hún segir Trump einnig hafa það markmið að koma Nicolas Maduro, forseta Venesúela, frá völdum og líkir honum og vinnuaðferðum hans við alkóhólista.

Hann hafi persónuleika alkóhólista og hún kunni að eiga í samskiptum við slíka menn, þar sem faðir hennar hafi verið alkóhólisti.

Fór ófögrum orðum um ráðherra og bandamenn

Hún sagði JD Vance, varaforseta, hafa verið samsæring í áratug og að hann hefði ekki snúist frá því andstæðingur Trumps og orðið bandamaður hans vegna hugsjóna hans. Þess í stað hefði hann gert það af pólitískum ástæðum því hann ætlaði sér að verða öldungadeildarþingmaður.

Um Elon Musk sagði hún að auðjöfurinn væri mikill notandi ketamíns. Hann væri undarlegur og snillingur en hann hegðaði sér reglulega ekki á skynsaman hátt.

Þá sagði hún að Russell Vought, sem stýrir fjárlagaskrifstofu Hvíta hússins, væri mikill hægri-öfgamaður og að Pam Bondi, dómsmálaráðherra, hefði klúðrað Epstein-málinu.

Segir greinina óheiðarlega setta fram

Wiles virðist ekki sátt við greinina sem birt var í morgun. Í færslu sem hún birti á X í dag segir hún að með greininni hafi markmiðið verið að koma höggi á hana og á besta forseta, bestu ráðherra og bestu ríkisstjórn í sögu Bandaríkjanna.

Hún segir enn fremur að mörg ummæli hennar hafi verið tekin úr samhengi og að virðist til að láta líta út fyrir að óreiða ríkti innan Hvíta hússins.

Wiles segir að hið rétta sé að engin önnur ríkisstjórn hafi áorkað eins miklu á átta árum og ríkisstjórn Trumps hafi gert á undanförnum ellefu mánuðum.

Vilji koma Maduro frá völdum

Eins og fram kemur í grein New York Times segir í grein VF að Wiles hafi beðið Trump um að náða ekki alla þá sem ákærðir voru og dæmdir vegna árásarinnar á þinghúsið þann 6. janúar 2021, sem hann gerði þó samt. Hún bað hann einnig um að bíða aðeins með að beita umfangsmiklum tollum á önnur ríki og að skipuleggja þyrfti betur brottflutning fólks sem dvalið hefur ólöglega í Bandaríkjunum, svo ekki yrðu gerð mistök.

Engin af þessum beiðnum bar árangur.

Einnig var rætt við hana um árásir Bandaríkjamanna á báta sem eiga að vera notaðir af smyglurum til að flytja fíkniefni og þrýsting á yfirvöld í Venesúela. Wiles sagði Trump vilja halda þessum árásum áfram og viðurkenndi að Trump, sem hefur talað um að gera árásir á landi, þurfi líklega þingið með sér í lið til þess.

Wiles sagði að Trump vildi halda árásum áfram þar til Maduro gæfist upp og færi frá völdum. Forsetanum væri sagt, af gáfuðu fólki, að það myndi Maduro gera á endanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×