Lífið

Fiðlu­leikari kærir Will Smith fyrir kyn­ferðis­lega á­reitni

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Brian King Joseph lék á fiðlu í tónleikaferðalagi Smith þegar meint áreitni mun hafa átt sér stað.
Brian King Joseph lék á fiðlu í tónleikaferðalagi Smith þegar meint áreitni mun hafa átt sér stað. Vísir/Samsett

Fiðluleikarinn Brian King Joseph hefur kært leikarann og tónlistarmanninn Will Smith fyrir kynferðislega áreitni, ólögmæta uppsögn og hefndaraðgerðir.

Joseph gerði áður garðinn frægan í hæfileikakeppninni America's got talent og var ráðinn til að taka þátt í tónleikaferðalagi Smith, Based on a True Story: 2025, eftir að hafa spilað í afleysingum haustið 2024.

Samkvæmt umfjöllun Guardian kom það fram í kæru Joseph að í mars 2025 hafi taska hans og lykill að hótelherbergi horfið í Las Vegas, þar sem hann hafði spilað á tónleikum fáum klukkustundum áður. Töskunni og lyklinum var skilað en seinna sama kvöld kveðst Joseph hafa komið að blautþurrkum og alnæmislyfjum merktum öðrum einstaklingi á herbergi sínu, auk miða sem á stóð: „Brian, ég kem aftur ekki seinna en 5:30, bara við<3, Stone F.“

Joseph segist hafa dregið þá ályktun að „óþekktur einstaklingur myndi brátt snúa aftur í herbergið hans til að stunda kynlíf“ með honum. Í kærunni segir einnig að stjórnendur tónleikaferðalagsins hafi verið „einu einstaklingarnir með aðgang“ að herberginu hans.

Joseph segir að hann hafi tilkynnt atvikið til öryggisvarða hótelsins og fulltrúa Smith og tilkynnt það til lögreglu. Joseph heldur því fram að síðar hafi einn af stjórnendunum „smánað“ hann vegna atviksins og samningi hans hafi verið sagt upp, og ýjað að því að hann hefði skáldað atvikið.

Vegna þessa kveðst hann þjást af áfallastreituröskun og hafa orðið fyrir fjárhagstjóni. Will Smith og lögmannateymi hans hafna ásökununum og segja þær tilhæfulausar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.