Innlent

„Við­brögð utan­ríkis­ráð­herra eru til skammar“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir er formaður Vinstri grænna.
Svandís Svavarsdóttir er formaður Vinstri grænna. vísir/vilhelm

Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna fordæmir árás Bandaríkjanna á Venesúela og segir hana afdráttarlaust brot á alþjóðalögum. Hún segir viðbrögð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra til skammar.

Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði í nótt loftárásir á Venesúela þar sem Nicolás Maduro var tekinn höndum ásamt eiginkonu hans og þau flutt til New York þar sem þau verða að líkindum dregin fyrir dómstóla. 

Vonast eftir lýðræðislegum umbótum í kjölfar valdaráns

Í viðtali á Vísi sagði Þorgerður Katrín utanríkisráðherra að Ísland geri þá kröfu að farið sé eftir stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem og öðrum alþjóðalögum sama hver eigi í hlut en gekk ekki svo langt að fordæma aðgerðir Bandaríkjamanna.

„Við munum einfaldlega fylgjast með þessu alveg eins og nágrannaríkin okkar, Noregur og aðrar Norðurlandaþjóðir sem og Evrópusambandið. Við munum bara fylgjast vel með þessum aðstæðum í Venesúela og sjá hvernig fram vindur. En undirstrika að framvindan verði á forsendum lýðræðislegs lýðræðislegs þankagangs og nálgunar,“ sagði hún meðal annars.

Árásin sem Bandaríkjamenn gerðu á Venesúela í nótt var gerð án þess að kosið væri um það. Raunar sagði Trump forseti það sjálfur að Bandaríkjaþingi væri ekki treystandi með þess konar upplýsingar. Allar skoðanakannanir benda einnig til þess að bandaríska þjóðin styðji þessar aðgerðir engan veginn.

„Ekki bara þegar hentar“

Svandís Svavarsdóttir er afdráttarlausari í viðbrögðum sínum. Hún segir líkt og utanríkisráðherra að Maduro eigi enga vorkunn skilið, en að brot á alþjóðalögum séu ólíðandi.

„Vopnuð innrás í annað ríki er afdráttarlaust brot á alþjóðalögum.

Smáríki eins og Ísland eiga allt sitt undir því að alþjóðalög séu virt – alltaf, ekki bara þegar það hentar,“ segir hún.

„Viðbrögð utanríkisráðherra eru til skammar. Ísland á að tala skýrt,“ segir Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×