Skoðun

Ert þú ekki bara pólitíkus?

Ása Berglind Hjálmarsdóttir skrifar

Ég er enginn pólitíkus, hef ég stundum heyrt fólk segja sem hefur brennandi áhuga á samfélagi sínu og hvernig því er stjórnað. Í grunninn þá snýst stjórnun sveitarfélags fyrst og fremst um að veita íbúum lögbundna þjónustu á sem bestan hátt og bera ábyrgð á skipulagsmálum og rekstri sveitarfélagsins. Þetta eru líka þeir þættir sem snerta daglegt líf fólks hvað mest og nauðsynlegt er að virki vel. Lögbundin þjónusta getur verið misgóð og sum sveitarfélög gera betur en önnur þegar kemur að útfærslu. Sama má segja um skipulagsmál. Fólk hefur á þeim sterkar skoðanir en oft er það aðeins of seint sem þær skoðanir koma fram, sérstaklega þegar sveitarfélög standa sig ekki nógu vel í að kynna það sem koma skal og gefa íbúum sveitarfélagsins aðkomu að skipulagsferlum, sem þeir eiga sannarlega lögbundinn rétt á að vel sé staðið að.

Sveitarfélög eru sameign íbúanna sem þar búa. Svo sveitarstjórn er smá eins og stjórn húsfélags. Hún ber ábyrgð á sameiginlegum fjármunum, nýtingu þeirra og að skapa sem best skilyrði fyrir búsetu sem á sama tíma stuðla að lífsgæðum þeirra sem deila fasteigninni.

Það er hægt að hafa áhrif

Fyrir fjórum árum vorum við nokkrir vinir sem ákváðum að hætta að ræða um það sem betur mætti fara við stjórnun sveitarfélagsins okkar við eldhúsborðið og stofnuðum nýjan lista, Íbúalistann í Ölfusi. Við fengum til liðs við okkur gott fólk sem hafði sömu markmið og gáfum kost á kröftum okkar í sveitarstjórnarskosningum 2022.

Við fórum af stað til þess að hafa áhrif og þrátt fyrir að hafa verið í minnihluta á þessu kjörtímabili höfum við sannarlega haft áhrif á sveitarfélagið okkar. Ég nefni þrjú dæmi:

Við stóðum með íbúum þegar kom að því að kynna hvað raunverulega væri á bak við grjótmulningsverksmiðju Heidelberg sem átti að reisa ofan í fiskeldin í túnfæti Þorlákshafnar. Héldum íbúafund þar sem við fengum fulltrúa frá Hafrannsóknarstofnun og Landvernd ásamt því að draga saman upplýsingar og umsagnir ýmissa stofnana eins og Vegagerðarinnar úr skipulagsgögnum um þessa framkvæmd. Nokkuð sem sveitarfélagið sjálft hefði átt að gera og kynna fyrir íbúum, en eftirlét Heidelberg alfarið að kynna verkefnið á sínum forsendum. Niðurstaðan var að íbúar höfnuðu verkefninu í íbúakosningu með afgerandi hætti.

Við vorum eini flokkurinn með stofnun grænna iðngarða á stefnuskrá, eitthvað sem meirihlutanum sem skipaður er Sjálfstæðismönnum þótti greinilega góð hugmynd og keyrði áfram.

Við kölluðum eftir því allt kjörtímabilið að unnin yrði atvinnustefna sem hafði fallið úr gildi fyrir nokkrum árum. Það hafðist loks um miðjan desember síðastliðinn að klára atvinnustefnuna, en alveg án aðkomu íbúa ef frá er talin gölluð íbúakönnun með örfáum svörum, sem vantaði að kynna miklu betur.

Það er nefnilega vel hægt að hafa áhrif sem kjörinn fulltrúi hvort sem maður starfar í minni- eða meirihluta. Best er auðvitað ef samstarf á milli flokka gengur vel og að allir vinni saman að markmiðum sem flest eru þess eðlis þegar á botninn er hvolft að allir eru sammála um. Samstarf þvert á flokka gengur mjög vel í mörgum sveitarfélögum og aðkoma minnihluta er víða meiri en ég upplifði í Ölfusi. Það lærði ég í samtölum mínum við aðra sveitarstjórnarfulltrúa, til dæmis í gegnum öflugt samstarf Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem er mjög dýrmætt.

Á éééég að gera það?

Nú þegar flest framboð eru farin af stað að undirbúa komandi sveitarstjórnarkosningar þá vil ég hvetja ykkur öll sem látið hag sveitarfélagsins ykkur varða að hugleiða hvort möguleiki sé fyrir þig að bjóða fram þína krafta í þágu samfélagsins. Ef svarið við því er að það komi til greina þá er um að gera að fara á stúfana og hafa samband við framboð, eða hreinlega stofna nýtt.

Nú sit ég ekki lengur í bæjarstjórn Ölfuss fyrir hönd Íbúalistans heldur á Alþingi fyrir hönd Samfylkingarinnar. Um land allt er ótrúlega öflugt Samfylkingarfólk farið af stað og víða er mikill hugur í fólki. Það sama má segja um okkur í Ölfusi og ætlum við sem stöndum að Íbúalistanum að bjóða fram lista í nafni Samfylkingarinnar í samstarfi við fólk úr öðrum flokkum og óháðum. Fyrir hönd Íbúalistans færi ég þakkir til þeirra sem hafa stutt við framboðið síðustu ár.

Samfylkingin stendur fyrir opnum fundi þriðjudaginn 13. janúar kl. 20 í Versölum þar sem við tökum á móti fólki sem vill gefa kost á sínum kröftum eða einfaldlega sýna stuðning sinn í verki með því að sýna sig. Við ætlum að eiga spjall um sameiginlegt áhugamál okkar allra, hvernig við búum til betra samfélag. Verið hjartanlega velkomin.

Ef þú sem þetta lest vilt gefa kost á þér fyrir Samfylkinguna ýmist í Ölfusi eða annars staðar í Suðurkjördæmi máttu gjarnan senda mér línu og ég vísa þér áleiðis.

Höfundur er þingkona Samfylkingar í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×