Erlent

„Við veljum Dan­mörku“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Jens-Frederik Nielsen og Mette Frederiksen héldu sameiginlegan blaðamannafund í dag.
Jens-Frederik Nielsen og Mette Frederiksen héldu sameiginlegan blaðamannafund í dag. EPA/LISELOTTE SABROE

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Jens-Frederik Nielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, héldu sameiginlegan blaðamannafund síðdegis þar sem afstaða ríkjanna var áréttuð um að Grænland væri ekki til sölu. Jens-Frederik sagði skýrt að ef valið stæði á milli Bandaríkjanna og Danmerkur, þá velji grænlensk stjórnvöld danska konungsríkið, Evrópusambandið og NATO. Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra Íslands, mun funda með norrænum kollegum síðar í dag vegna málsins.

Frederiksen benti á, að þótt ósk Bandaríkjaforseta um að eignast Grænland hafi mætt einna mest á Grænlendingum, þá snúist málið um eitthvað meira og stærra en bara danska konungsríkið.

Ekki til sölu, og ekki í boði

Frederiksen ítrekaði að enginn geti keypt eða slegið eignarhaldi sínu á annað ríki eða þjóð eða breytt landamærum í krafti valds og stærðar. Þannig virki það ekki. Hún sagði jafnframt að það hafi reynt verulega á að standa frammi fyrir þessum veruleika gagnvart nánu bandalagsríki, Bandaríkjunum.

Jens-Frederik var jafnframt afdráttarlaus í sínu máli. Það hvort Grænlendingar vilji lýsa yfir sjálfstæði frá Danmörku þegar fram líða stundir, sé ekki spurning sem skipti máli nú. Núna skipti öllu máli að sýna samstöðu. 

Allra augu á Washington á morgun

Blaðamannafundurinn var haldinn í aðdraganda fundar utanríkisráðherra Danmerkur og Grænlands með Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington DC á morgun. Í dag boðaði síðan JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, einnig komu sína á fundinn á morgun. Þátttaka Vance á fundinum á morgun þykir jafnvel til marks um frekari stigmögnun í spennu milli ríkjanna þriggja vegna síendurtekinnar orðræðu Bandaríkjastjórnar um að þau verði að eignast Grænland.

„Grænland vill ekki vera í eigu Bandaríkjanna,“ sagði Nielsen. „Ef við ættum að velja á milli Bandaríkjanna og Danmerkur hér og nú, þá veljum við Danmörku. Við veljum NATO, við veljum danska konungsríkið og við veljum Evrópusambandið,“ sagði Jens-Fredrik Nielsen.

Kristrún Frostadóttir mun síðdegis í dag eiga símafund með Mette Frederiksen og öðrum norrænum forsætisráðherrum vegna málefna Grænlands í ljósi þeirrar óvenjulegu stöðu sem uppi er í alþjóðakerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×