Veður

Minnkandi norð­læg átt en bætir í vind á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Síðdegis á morgun er því spáð vaxandi suðaustanátt.
Síðdegis á morgun er því spáð vaxandi suðaustanátt. Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir minnkandi norðlæga átt í dag þar sem búast megi við slyddu eða snjókomu með köflum fyrir norðan og jafnvel rigningu úti við sjóinn.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði þurrt sunnantil og að hiti á landinu verði kringum frostmark. Það mun svo kólna heldur í kvöld.

„Í fyrramálið eru horfur á rólegu og þurru veðri á landinu og frost yfirleitt á bilinu 0 til 5 stig.

Á morgun er djúpri lægð spáð við suðurodda Grænlands og áhrifa hennar fer að gæta hér á landi þegar kemur fram á daginn. Síðdegis á morgun er því spáð vaxandi suðaustanátt, 10-18 m/s sunnan- og vestanlands undir kvöld með hlýnandi veðri þar og lítilsháttar slyddu eða rigningu.

Aðfaranótt sunnudags bætir síðan meira í vind og regnsvæði frá lægðinni kemur inn á landið. Á sunnudag er útlit fyrir stífa suðaustanátt með rigningu, en Norðurland ætti að haldast þurrt,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Breytileg átt 3-8 m/s, þurrt að mestu og frost 0 til 5 stig. Vaxandi suðaustanátt síðdegis, 10-18 sunnan- og vestanlands undir kvöld með hlýnandi veðri þar og dálítilli slyddu eða rigningu.

Á sunnudag: Suðaustan 13-20 framan af degi, en 10-18 eftir hádegi, hvassast vestanlands. Þurrt að kalla á Norður- og Norðausturlandi, annars víða rigning. Hiti 2 til 7 stig.

Á mánudag: Suðaustlæg eða breytileg átt og rigning eða slydda með köflum, en úrkomulítið norðantil. Heldur kólnandi.

Á þriðjudag: Austlæg átt með éljum eða skúrum og hita 0 til 5 stig, en yfirleitt þurrt á norðanverðu landinu með vægu frosti.

Á miðvikudag: Austan- og norðaustanátt og rigning eða slydda, en úrkomulítið um landið vestanvert. Hiti 0 til 5 stig.

Á fimmtudag: Suðaustlæg eða breytileg átt og rigning eða slydda með köflum, einkum sunnantil. Hiti breytist litið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×