Skoðun

Borgin sem við byggjum er fjöl­breytt borg

Heiða Björg Hilmisdóttir skrifar

Sú umbylting sem orðið hefur á Reykjavíkurborg á undanförnum þremur áratugum var borin á herðum félagshyggjufólks úr ólíkum flokkum. Undir hatti Reykjavíkurlistans var lagður grunnur að breytingu borgarinnar í þjónustustofnun sem mætti ólíkum þörfum einstaklinga á mismunandi aldursskeiðum. Jöfnuður var meginstef breytinganna. Fjölskyldur og fyrirtæki, börn, unglingar og eldri borgarar, öll kyn, ólíkur uppruni; öll eru velkomin í Reykjavík. Hún tekur utan um þau minnstu og þau elstu borgin okkar og gerir ekki upp á milli.

Við eigum því fólki mikið að þakka sem rauf hefðbundnar átakalínur gamalgróinna stjórnmálaflokka og með því kyrrstöðuna um Reykjavík íhaldsins. Þau voru og eru fólk breytinganna og byggðu borgina í anda nútímalegrar frjálslyndrar og norrænnar velferðar. Leikskólar og grunnskólar, samgöngur og borgarskipulag, stofnanir borgarinnar. Allt kapp var nú lagt á að þjóna þörfum þeirra sem byggja borgina. Hið fyrra skipulag feðraveldis á einkabílnum vék og við tók borgin sem fólk hvaðanæva að, utan af landi og utan úr heimi, vildi flytja til og gera að sínu heimili.

Ekki er enda síðri, umbreytingin sem orðið hefur á viðhorfi okkar til samfélags sem öll tilheyra. Hver sem þú ert og hvernig sem þú ert, þá er Reykjavík til í að hýsa þig. Þú mátt tilheyra. Þú ert velkomin. Þetta er okkar aðalsmerki. Hér er engin regla um hversu lengi þú þarft að búa til að mega kalla þig Reykvíking. Á fyrsta degi búsetu hér, ertu Reykvíkingur. Við erum borg fjölbreytileikans og fjölmenningarinnar. Við erum gestrisin borg. Komdu fagnandi.

Þetta sjá allir á þátttöku í viðburðum og hátíðum þar sem við höldum uppá hversu ólík við erum. Tugþúsundir og jafnvel hundruð þúsunda fylkja liði á strætum og torgum höfuðborgarinnar.

Er þetta sjálfgefið? Nei. Það eru blikur á lofti. Hvar ætlar tveggja kynja prammi þröngsýni og kynþáttahyggju að koma sér fyrir í næstu Gleðigöngui? Verða Hinsegin dagar haldnir í borginni ef slík sjónarmið verða í næsta meirihluta? Hver hleypir slíku fólki til valda og áhrifa? Ekki ég og ekki Samfylkingin í borgarstjórn Reykjavíkur undir minni forystu. Ég er hrædd um að þeir verði litlausir regnbogafánar Reykjavíkurborgar undir slíkri stjórn og verri verður móttaka okkar minnstu bræðra og systra sem leita á náðir okkar frá stríðshrjáðum löndum.

Þetta snýst um grundvallaratriði í pólitík. Við jafnaðarmenn eigum ekki samleið með kynþáttahyggju í útlendinga- og jafnréttismálum. Við gerum ekki málamiðlanir við rasismann. Við erum nákvæmlega ekki eins og þau. Stöndum fyrir algerlega andstæða stefnu og eigum enga samleið með þeim. Þar er ekkert vantalað.

Þau stjórnmálaöfl sem gæla við orðræðu ysta hægrisins verða að finna að það er ekki umburðarlyndi fyrir slíku rugli hér. Ekki í Reykjavík og ekki á Íslandi. Hvergi. Reykjavík hinna fáu og útvöldu er liðin tíð.

Höfundur er borgarstjóri Reykjavíkur.




Skoðun

Sjá meira


×