Viðskipti innlent

Davíð ráðinn til að stýra Al­mennings­sam­göngum höfuð­borgar­svæðisins

Atli Ísleifsson skrifar
Davíð Þorláksson.
Davíð Þorláksson.

Davíð Þorláksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Almenningssamgangna höfuðborgarsvæðisins ohf. úr hópi 23 umsækjenda. Hann mun hefja störf á næstu dögum. Um er að ræða nýtt félag sem tekur yfir rekstur leiðakerfis Strætó.

Í tilkynningu segir að Davíð hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra Betri samgangna ohf. frá janúar 2021. 

Hann er með MBA-gráðu frá London Business School og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Áður var hann forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins frá 2017-2021, yfirlögfræðingur Icelandair Group 2009-2017, yfirlögfræðingur fjárfestingabankans Askar Capital 2007-2009 og lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands 2005-2007.

„Davíð hefur leitt uppbyggingu Borgarlínunnar undanfarin ár sem framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. Hann býr yfir víðtækri þekkingu á umhverfi almenningssamgangna og því er það mikils virði að fá hann til að leiða hið nýja félag og starfsfólk þess í gegnum þær breytingar sem framundan eru, m.a. vegna tilkomu Borgarlínunnar,“ er haft eftir Erni Guðmundssyni, stjórnarformanni Almenningssamgangna höfuðborgarsvæðisins í tilkynningunni.

„Almenningssamgöngur höfuðborgarsvæðisins voru stofnaðar 1. september 2025 og mun félagið taka við umsýslu og rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ríkið fer með 33% eignarhlut í félaginu á móti 67% hlut sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Með stofnun nýs félags er verið að aðskilja skipulag og þjónustustýringu frá daglegum rekstri vagna. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Markmiðið er að bæta þjónustu, auka sveigjanleika og tryggja skýrari ábyrgð og eftirlit með gæðum,“ segir í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×