Handbolti

Botna ekkert í Snorra: „Við erum teknir í bólinu“

Sindri Sverrisson skrifar
Sérfræðingarnir vilja að Elliði Snær Viðarsson og Einar Þorsteinn Ólafsson séu saman í miðri vörn Íslands, líkt og í seinni hálfleik gegn Ungverjalandi í síðasta leik.
Sérfræðingarnir vilja að Elliði Snær Viðarsson og Einar Þorsteinn Ólafsson séu saman í miðri vörn Íslands, líkt og í seinni hálfleik gegn Ungverjalandi í síðasta leik. vísir/Vilhelm

„Plaffaðir í kaf og lítil markvarsla. Menn eru allt of mikið að gleyma sér,“ sagði Ólafur Stefánsson í hálfleik leiks Íslands og Króatíu á EM í handbolta, ómyrkur í máli þegar talið barst að hriplekri vörn Íslands.

Króatía var 19-15 yfir í hálfleik og virtist hreinlega geta skorað að vild. Markverðir Íslands vörðu samtals þrjú skot og vörnin hjálpaði þeim nánast ekkert.

„Þú mátt bara ekki gleyma þér. Menn eru aðeins að sökkva. Gleyma sér í sekúndu og þetta snýst bara um sekúndubrot,“ sagði Ólafur á RÚV í hálfleik.

Sérfræðingarnir voru sammála um að Elliði Snær Viðarsson og Einar Þorsteinn Ólafsson ættu að vera saman í miðri vörn Íslands, líkt og í seinni hálfleik gegn Ungverjalandi í síðasta leik, og kölluðu eftir því að Snorri Steinn Guðjónsson færi þá leið.

„Það fæðast nýir leikmenn á hverju stórmóti. Einar Þorsteinn spilaði frábærlega í síðasta leik eftir að Elvar meiddist. Ég skil ekki af hverju er verið að bíða með hann í þessum leik. Við erum teknir í bólinu. Flatir. Fáum á okkur 19 mörk. Hvaða rugl er það?“ sagði Kári Kristján Kristjánsson og tók af Ólafi ómakið við að kalla eftir syni hans í vörnina. Logi Geirsson tók í sama streng:

„Elliði og Einar Þorsteinn eiga bara að spila þarna. Mér fannst skrýtið hvernig hann [Snorri Steinn] byrjaði leikinn. Þeir [Króatar] vilja fá þetta flæði og þessar flugbrautir, en við erum hvergi að stoppa þá,“ sagði Logi.

„Við verðum að fara í agressíva, virka vörn. Þegar það gerist þá má enginn leikmaður gleyma sér. Þá þarf athygli frekar en nokkru sinni fyrr,“ sagði Ólafur fyrir seinni hálfleikinn og sérfræðingarnir virtust sammála um að Viktor Gísli Hallgrímsson ætti að fá allan tímann í markinu:

„Hann verður bara að vera þarna inná.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×