Handbolti

Össur gagn­rýndi fýlulegar og miskunnar­lausar spurningar Loga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Össur Skarphéðinsson var að horfa þegar Logi Geirsson spurði Ómar Inga Magnússon í beinni og var ekki hrifinn.
Össur Skarphéðinsson var að horfa þegar Logi Geirsson spurði Ómar Inga Magnússon í beinni og var ekki hrifinn. RÚV/Vísir/Vilhelm

Össur Skarphéðinsson, fyrrum alþingismaður, formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, var allt annað en sáttur með Loga Geirsson eftir tapleik Íslands á móti Króatíu á EM í handbolta í kvöld.

Það sem fór sérstaklega fyrir brjóstið á Össuri voru spurningarnar sem landsliðsfyrirliðinn Ómar Ingi Magnússon fékk í beinni útsendingu sjónvarpsins.

Spurningarnar komu frá sérfræðingum í útsendingarlás Ríkissjónvarpsins eða frá þeim Loga Geirssyni, Kára Kristjánssyni og Ólafi Stefánssyni.

Össur gagnrýndi aðallega fýlulegar og miskunnarlausar spurningar Loga Geirssonar í stuttum pistli sínum inni á Fésbók.

Verulega vond hugmynd hjá RÚV

„Það er verulega vond hugmynd hjá íþróttadeild RÚV að láta besservissera með glæsta handboltafortíð spyrja niðurbrotna leikmenn nokkrum mínútum eftir tap gegn Króatíu fýlulegra og fast að því miskunnarlausra spurninga (Logi Geirsson),“ skrifaði Össur.

„Það er ekki gott sjónvarp og gerir viðkvæmar sálir fullar af angist fyrir hönd manna sem gera allt sitt besta. Án efa hefur þetta líka niðurbrjótandi áhrif á liðið. Skylda þjálfarans er að tala fyrir liðið, Snorri Steinn gerir það vel og ég hvet hann til að banna leikmönnum að láta setja sig í þennan ósvífna gapastokk RÚV,“ skrifaði Össur.

Hann vildi þó ekki að gagnrýni hans næði til Ólafs Stefánssonar og þar virðist uppruninn skipta miklu máli.

Ólafur kann mannasiði og sálfræði

„Ég tek þó Ólaf Stefánsson út fyrir sviga enda er hann Dýrfirðingur að uppruna og kann mannasiði og sálfræði,“ skrifaði Össur en Logi fékk áfram að heyra það.

„Logi Geirsson virðist ekki hafa annað erindi í handboltaþættina en setja út á þjálfarann fyrir og eftir leiki og sýna fataskápinn sinn (sem er flottur). En hann ætti heldur að leggja fyrir sig módelstörf en að vera kommentator - enda annálað glæsimenni,“ skrifaði Össur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×