Handbolti

Spán­verjar unnu Frakka og greiddu leiðina fyrir Al­freð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ian Barrufet skoraði tíu mörk fyrir Spánverja í sigrinum á Frökkum.
Ian Barrufet skoraði tíu mörk fyrir Spánverja í sigrinum á Frökkum. getty/Sina Schuldt

Spánn gerði sér lítið fyrir og vann nokkuð öruggan sigur á Frakklandi, 36-32, í milliriðli I á Evrópumótinu í handbolta.

Spánverjar fengu þarna sín fyrstu stig í milliriðli I. Þeir eru samt enn á botni hans.

Tapið gæti haft mikil áhrif á stöðu Evrópumeistara Frakka og möguleika þeirra á að komast í undanúrslit. Frakkland er í 3. sæti milliriðils I með fjögur stig og mætir Þýskalandi í lokaumferð milliriðlakeppninnar á miðvikudaginn.

Vegna taps Frakklands geta þýsku strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar tryggt sér sæti í undanúrslitum með því að forðast tap gegn Danmörku í leik sem hefst klukkan 19:30 í kvöld.

Ian Barrufet skoraði tíu mörk fyrir spænska liðið sem hafði tapað þremur leikjum á EM í röð fyrir viðureignina í Herning í dag.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en Spánverjar náðu undirtökunum með góðum kafla þar sem þeir breyttu stöðunni úr 7-8 í 12-8. Spánn leiddi með sex mörkum í hálfleik, 20-14.

Mestur varð munurinn á liðunum sjö mörk, 23-16. Frakkar tóku þá við sér og minnkuðu muninn í eitt mark, 26-25. Spánverjar skoruðu hins vegar næstu þrjú mörk og þá var björninn unninn. Á endanum munaði fjórum mörkum á liðunum, 36-32.

Sergey Hernández varði fjórtán skot í spænska markinu (33 prósent) og þeir Jan Gurri og Aleix Gómez skoruðu sitt hvor fimm mörkin.

Aymeric Minne skoraði sjö mörk fyrir Frakkland og Hugo Descat fimm. Stórskyttan Dika Mem náði sér engan veginn á strik og klúðraði öllum fjórum skotunum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×