Handbolti

Al­freð brosti breitt: „Hafði hár­rétt fyrir mér sem betur fer“

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason var glaðbeittur eftir að hafa náð að taka leikhlé á hárréttum tímapunkti og aðstoðarmanni hans var ekki síður skemmt.
Alfreð Gíslason var glaðbeittur eftir að hafa náð að taka leikhlé á hárréttum tímapunkti og aðstoðarmanni hans var ekki síður skemmt. Skjáskot/RÚV2

Þó að spennan væri í hámarki í leik Þýskalands og Frakklands á EM í handbolta í gær gat Alfreð Gíslason gat ekki annað en brosað breitt þegar hann tók leikhlé á hárréttum tímapunkti, öfugt við umdeilt leikhlé sem hann tók fyrr í mótinu.

Staðan var 30-28 Þýskalandi í vil í leiknum mikilvæga í gær sem var hreinlega upp á það hvort liðanna kæmist í undanúrslit. Þjóðverjar voru með boltann og í þann mund sem þeir gáfu misheppnaða línusendingu, og hefðu þá fengið hraðaupphlaup í bakið, tók Alfreð afar mikilvægt leikhlé.

Það gekk svo vel upp að Þýskaland skoraði og jók muninn í þrjú mörk, þegar liðið hefði getað misst forskotið niður í eitt mark og enn níu mínútur til stefnu, ef Alfreð hefði ekki verið svona á tánum.

„Ég hef tekið svona áhættu tíu sinnum á ferlinum og einu sinni klikkaði ég. Það var á móti Serbíu því ég var að horfa á klukkuna til að sjá hvað væri mikið eftir. Það voru mistök hjá mér. 

Í dag hafði ég heppnina með mér. Ég hélt að sendingin myndi ekki koma því þeir voru að verjast við sex metra línuna. Ég hafði hárrétt fyrir mér, sem betur fer,“ sagði Alfreð glaðbeittur í viðtali eftir sigurinn í gær.

Alfreð brosti líka breitt þegar hann hafði tekið leikhléið og aðstoðarmaður hans var nánast hlæjandi yfir því hve vel tókst til, í ljósi þess sem á undan var gengið.

Alfreð hafði verið gagnrýndur fyrr í mótinu eftir að hann tók leikhlé í tapleiknum gegn Serbíu í riðlakeppninni og kom þannig í veg fyrir mark frá Juri Knorr.

Alfreð viðurkenndi strax mistök sín og á endanum skipti tapið gegn Serbíu ekki neinu máli því Serbar sátu eftir í riðlakeppninni. Þýskaland hefur síðan unnið alla sína leiki fyrir utan tap gegn Danmörku, endaði í 2. sæti síns milliriðils og mun spila við Króatíu í undanúrslitunum á morgun, áður en Íslendingar takast á við Dani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×