Erlent

Stjórnarandstæðingar vilja skoða viðskiptaþvinganir

Formenn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs mæltust til þess að íslensk stjórnvöld beittu sér fyrir því á alþjóðavettvangi að skoðaður yrði sá möguleiki að beita Ísraela viðskiptaþvingunum. Með því mætti freista þess að koma á friði í Miðausturlöndum. "Það er fátt sem ógnar heimsfriðnum jafn mikið og átökin fyrir botni Miðjarðarhafs," sagði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingar, þegar hann hóf utandagskrárumræðu um málið. Hann gagnrýndi Ísraela fyrir hörku sína og sagði George W. Bush Bandaríkjaforseta hafa hellt olíu á eldinn með því að veita Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, heimild til að ganga enn lengra en Ísraelar hefðu þegar gert. Hann klikkti út með því að spyrja utanríkisráðherra hvort íslensk stjórnvöld væru reiðubúin að beita sér fyrir því að Ísraelar yrðu beittir viðskiptaþvingunum og því jafnvel hótað að segja upp stjórnmálasambandi við þá. "Ég tel ekki að efnahagsþvinganir séu það úrræði sem dugi í þessu máli," sagði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og taldi að slíkar aðgerðir kynnu fyrst og fremst að bitna á Palestínumönnum. Hann sagði einnig líklegt að þau ríki sem segðu upp stjórnmálasambandi við Ísrael gerðu ekki annað en að missa öll áhrif á framgang mála. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, sagði ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs skelfilegra en nokkru sinni fyrr. "Ég tel miklu meira en tímabært að taka til íhugunar sértækar viðskiptaþrýstiaðgerðir," sagði hann og tiltók bann við fjárfestingum og vopnasölu til Ísraels sem leiðir sem mætti fara. Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar, sagði óbreytta borgara úr beggja röðum líða fyrir átökin og að þjóðir heims yrðu að aðhafast. Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, fordæmdi hernaðaraðgerðir Ísraela í Rafah-flóttamannabúðunum. "Þessi aðgerð var hreinn og klár stríðsglæpur," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×