Innlent

Árni víki úr ríkisstjórn

Formaður fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Hafnarfirði segir að Árni Magnússon eigi að víkja þegar ráðherrum Framsóknarflokksins verður fækkað um einn þann fimmtánda september. Sjálfur segir Árni að ákvörðunin sé þingflokksins og hann muni hlíta henni þegar þar að kemur. Stjórn fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Hafnarfirði sendi í dag frá sér ályktun þar sem skorað var á formann Framsóknarflokksins og þingflokk framsóknarmanna að taka tillit til þess að Siv Friðleifsdóttir hafi flest atkvæði á bak við sig af þingmönnum flokksins, þegar gerðar verða breytingar á ráðherraliði flokksins þann 15. september næstkomandi. Ingvar Kristinsson, formaður fulltrúaráðsins, segir að eðlilegast sé að Árni Magnússon víki úr ráðherrastóli. Hann standi veikar en Siv með tilliti til síðustu kosninga, þrátt fyrir að hann sé að gera ágætis hluti í félagsmálaráðuneytinu að sögn Ingvars. Einhver verði hins vegar að víkja. Ingvar segir Framsóknarflokkinn hafa fengið mjög góða kosningu í Suðvesturkjördæmi og því væri það mjög bagalegt fyrir starf flokksins í kjördæminu ef Siv, sem er 5. þingmaður Suðvesturkjördæmis, yrði látin víkja.     Um yfirlýsingar Hjálmars Árnasonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, frá því í gær um að rétt væri að ræða málið innan flokksins en ekki í fjölmiðlum, segir Ingvar að Hjálmari sem þingflokksformanni finnist sjálfsagt óþægilegt að menn komi ábendingum þannig til skila til flokksins. Ingvar segir hvern og einn framsóknarmann hins vegar ekki geta stormað á fund Hjálmars.  Í viðtali við fréttastofu nú rétt fyrir fréttir sagði Árni sjálfur að hann léti þrýsting af þessu tagi ekki á sig fá. Það væri þingflokksins að taka ákvörðun og hann myndi hlíta niðurstöðunni, hver svo sem hún yrði þegar þar að kæmi. Hægt er að hlusta á viðtal við Ingvar Kristinsson úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×