Innlent

Borgarfyrirtæki í samkeppni seld

Alfreð Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segir að engin ágreiningur sé um það innan borgarstjórnar Reykjavíkur að einkahlutafélögin Vélamiðstöðin og Malbikunarstöðin verði seld. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir þessa niðurstöðu vera fagnaðarefni: "Það er augljóst að tvær grímur hafa runnið á R-listamenn eftir að málefni Vélamiðstöðvarinnar komust í hámæli. Við höfum barist fyrir því að borgin dragi sig út úr þessum samkeppnisrekstri og með þessari kúvendingu er meirihlutinn að fallast á okkar sjónarmið." Fréttablaðið greindi frá því í gær að Vélamiðstöðin, sem er í eigu Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar, hafi fengið verk hjá borginni fyrir hundruð milljóna án útboðs. Vélamiðstöðin átti auk þess lægsta boð í einn hluta verkefnis í útboði á vegum Sorpu sem Reykjavíkurborg er stærsti eigandinn að.. Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, segir að vinstrigrænir hafi viljað skoða hvort til greina kæmi að selja Vélamiðstöðina en engin formleg ákvörðun hafi verið tekin. "Ég verð að segja að þetta tilboð þeirra í Sorpu er óheppilegt og það hefur gefið okkur tilefni til að skoða þessi mál upp á nýtt," sagði Árni Þór í samtali við Fréttablaðið. Stjórnarformaður Sorpu er Alfreð Þorsteinsson en hann er jafnframt stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, annars eiganda Vélamiðstöðvarinnar, og forstjóri Orkuveitunnar og samstarfsmaður Alfreðs þar, Guðmundur Þóroddsson, er einn þriggja stjórnarmanna Vélamiðstöðvarinnar. Alfreð sagðist í samtali við Fréttablaðið ekki sjá neitt athugavert við viðskipti Vélamiðvöðvarinnar við fyrirtæki borgarinnar. "Umhverfi á þessum markaði hefur verið að breytast. Einkaaðilar hafa í sívaxandi mæli tekið að sér verkefni sem Vélamiðstöðion sinnti áður," segir Alfreð. "En nú er fullur vilji til þess hjá núverandi meirihluta að selja Vélamiðstöðina, og það sama á við um Malbikunarstöðina," sagði Alfreð en hann vildi ekki gefa upp hvenær af sölunni yrði, aðeins að það yrði "í fyllingu tímans." Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson segir að ekkert útiloki að salan eigi sér stað fljótlega. "Ég tel að okkur sé ekkert að vanbúnaði að ganga til þessa verks á næstu mánuðum," segir Vilhjálmur. Stjórnarformaður Vélamiðstöðvarinnar, Stefán Jóhann Stefánsson, vildi ekki svara því hvort honum væri kunnugt um þær fyrirætlanir borgarinnar að selja fyrirtækið. "En það hefur auðvitað ýmislegt verið rætt," sagði Stefán.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×