Innlent

Neytendur hagnast segir SUF

Samband ungra framsóknarmanna fagnar því að bankakerfið bæti þjónustu sína við almenning í landinu með því að bjóða húsnæðislán fyrir allt að 80% af kaupverði og á vöxtum sem eru sambærilegir við lánskjör Íbúðalánasjóðs. Í ályktun SUF segist sambandið telja löngu tímabært að bankakerfið taki á þennan hátt þátt í fjármögnun íbúðarhúsnæðis landsmanna. "Það er enginn vafi á því að meginskýringin á þessari bættu þjónustu bankakerfisins er sú þróun sem orðið hefur frá því að Framsóknarflokkurinn hóf baráttu sína fyrir 90% almennum húsnæðislánum í landinu. Frá myndun núverandi ríkisstjórnar hefur verið unnið ötullega að framkvæmd ákvæðis stjórnarsáttmálans um 90% húsnæðislán," segir í ályktun SUF.  Þá segir að ríkisstjórnin stefni að því að leggja fram frumvarp um 90% lán strax á haustþingi. Sú umræða sem kosningaloforð Framsóknarflokksins skapaði um húsnæðismál í landinu sé forsenda þeirra bættu kjara sem bankarnir séu nú að bjóða almenningi í landinu. "Um leið og SUF fagnar tilboði bankanna áréttar stjórnin nauðsyn þess að Íbúðalánasjóður bjóði almenn 90% lán. Íbúðalánasjóður gegnir mikilvægu félagslegu hlutverki og tryggir landsmönnum öllum bestu hugsanleg kjör á hverjum tíma óháð búsetu," segir í ályktun SUF.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×