Innlent

Árni segir Ragnhildi hæfasta

"Ábyrgðin er mín og það er mitt mat að Ragnhildur hafi staðið fremst af þeim þremur umsækjendum sem kallaðir voru til viðtals vegna starfs ráðuneytisstjóra," sagði Árni Magnússon félagsmálaráðherra um val sitt í starfið. Hann sagði að þótt engin skylda hefði borið til, hefði ráðningarstofan Mannafl verið fengin til að leggja mat á hæfi umsækjenda. Hún hefði komist að þeirri niðurstöðu, að þeir sex sem eftir stóðu, eftir að einn umsækjenda hafði dregið umsókn sína til baka, væru vel hæfir en þrír hæfastir. "Þegar ég var búinn að fara yfir það sem fólk hefur skrifað, gert og sagt í viðtölum, auk hliðsjónar af þeim verkefnum sem framundan eru í ráðuneytinu, svo og mannlegum samskiptum og öðru sem hafa þarf í huga og taka með inn í svona ákvörðun, þá er það mín niðurstaða að Ragnhildur standi fremst." Spurður hvort þau ummæli sem látin hefðu verið falla undanfarna daga í röðum framsóknarmanna, að yngri menn í flokknum ýttu eldri reynsluboltum út í horn eða settu fólk á "dauðalistann", væru að sannast þarna svaraði Árni: "Ég kannast ekkert við þessar lýsingar sem þarna eru uppi. Ég sé ekki hvað þær koma þessu máli við. Helga er mikil ágætis kona. Ég veit ekki til þess að hún hafi komið nálægt stjórnmálum í langan tíma og skil því ekki hvers vegna menn eru að reyna að tengja þetta flokkspólitík."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×