Innlent

Túlka ummælin á ólíka vegu

"Það er alrangt að hér sé um kúvendingu að ræða hjá Halldóri," segir Eiríkur Bergmann Einarsson, sérfræðingur í Evrópumálum við Háskóla Íslands um ræðu utanríkisráðherra á Akureyri. "Það eina nýja í ræðunni er að hann notar orðið nýlendustefnu um sjávarútvegsstefnuna." Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sakaði Halldór um að hafa skipt um skoðun í Fréttablaðinu í gær. Eiríkur Bergmann sem er varaþingmaður Samfylkingarinnar og óumdeilt helsti sérfræðingur flokksins í Evrópumálum telur formanninn taka rangan pól í hæðina. "Halldór útilokar alls ekki aðild að ESB í ræðunni. Það fer ekki á milli að orð Halldórs eru liður í diplómatískri herferð til að þvinga fram viðbrögð Evrópusambandsins um sérstakt stjórnsýslusvæði á Norður-Atlantshafinu. Ræða Halldórs er í rauninni aðeins útfærsla hans á Berlínarræðu hans fyrir tveimur árum. Hann vill fyrst og fremst reyna að knýja fram aukinn sveigjanleika af hálfu ESB í garð Íslands og Noregs til að útiloka þessi ríki ekki frá aðild. Hann fer fram á sveigjanlegar lausnir af svipuðu tagi og önnur ríki hafa áður fengið. Halldór er alls ekkert að loka á aðild heldur er hann að reyna að fá fram pólitískan vilja og pólitískar lausnir af hálfu ESB til að liðka fyrir sjónarmiðum landanna tveggja."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×