Innlent

Ábyrgðarleysi að útiloka ESB-aðild

"Sá dagur kann að koma að við sjáum hagsmunum okkar best borgið innandyra í Evrópusambandinu". Þetta sagði Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins í síðustu ræðu sinni sem utanríkisráðherra á fundi þingflokks og landstjórnar flokksins í Borgarnesi í gær. "Ég hef ekki sagt hvenær, en ég veit að við verðum að fara í þessa vinnu og við Framsóknarmenn eigum að hafa forystu í þeim efnum". Halldór sagði það ábyrgðarleysi að útiloka aðild að ESB, það væri "bara hluti af framtíðinni að ræða þetta", hvort sem mönnum líkaði betur eða verr. "Það þýðir ekkert að forðast að segja óþægilega hluti þótt menn hrökkvi við og segi sig jafnvel úr flokknum". Halldór nefndi sérstaklega reynslu Norðmanna sem víti til varnaðar; þeir hefðu tvisvar samið um aðild án nægs undirbúnings og aðildarsamningar síðan verið felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu. "Við megum ekki lenda í sömu sporum og Norðmenn. Við værum að bregðast hlutverki okkar í stjórnmálum ef við neituðum möguleikanum á að sækja um." Halldór sagði að opin og víðtæk umræða yrði að vera í þjóðfélaginu og síðan þyrfti að vega og meta á yfirvegaðan hátt kosti þess að gerast aðili. Utanríkisráðherra dró ekkert úr gagnrýni sinni á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og líkti henni á ný við "nýlendustefnu". Athygli vakti að Halldór vék í veigamiklum atriðum frá skrifuðum texta í ræðu sinni í Borgarnesi og hnykkti mjög á orðum sínum um hugsanlega aðild Íslands að ESB. Með orðum sínum í Borgarnesi vill utanríkisráðherra bersýnilega slá á fullyrðingar um sinnaskipti í Evrópumálunum eins og stjórnarandstaðan hefur sakað hann um eftir ræðu hans á Akureyri á miðvikudag. En hafa meintar misjafnar áherslur utanríkisráðherra í opinberum málflutningi undanfarið ekki boðið upp á ólíkar túlkanir? "Ég hef aldrei útilokað aðild að Evrópusambandinu, það er bara röng túlkun á mínum orðum" sagði Halldór Ásgrímsson í viðtali við Fréttablaðið. "Hins vegar verða menn að átta sig á að aðild að Evrópusambandinu er ekkert einfalt mál og sjálfsagt. Það blasa við mjög mörg úrlausnarefni sem skipta miklu máli fyrir hagsmuni Íslands og því verður ekki komist hjá því að tala um þau eins og þau eru."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×