Innlent

Ríkið vinni að dreifikerfinu

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir afstöðu framsóknarmanna skýra varðandi uppsetningu dreifikerfis um land allt. Jafnvel komi til greina að ríkið vinni að uppbyggingu slíks kerfis, þótt Síminn verði kominn úr eigu þess. Hjámar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarmanna, segir einhug meðal flokksmanna að Síminn verði ekki seldur fyrr en tryggt verði að landsbyggðin öll hafi aðgang að dreifikerfi. Davíð Oddsson forsætisráðherra hefur þó lýst því yfir að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að selja fyrirtækið, án skilyrða. Þingflokksformaðurinn segir einhvern misskilning á ferð, einhversstaðar, en bókun þingflokks framsóknarmanna sé afskaplega skýr. Hann segir þetta ekki setja sölu Símans í uppnám því forsætisráðherra sé ekki að taka afstöðu gegn því að byggja upp dreifikerfið heldur þvert á móti að benda á að fyrir þá tugi milljarða sem komi inn sé létt verk að ljúka uppbyggingunni. Hjálmar segir það kosta á bilinu 100-200 milljónir, mesta lagi 300 milljónir, að koma lágmarksaðstöðu upp. Spurður hvort það sé ekkert óeðlilegt að ríkið komi upp dreifikerfi eftir að það hefur selt Símann segir Hjálmar að það megi alveg segja það en ríkið hafi pólitískar skyldur til að halda uppi grunnþjónustu. Þess vegna hafi fyrirvarinn verið settur á sínum tíma og Framsóknarflokkurinn vill að það gerist núna. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×