Innlent

107 karlar - 10 konur

Eitthundrað og sautján manns hafa gegnt ráðherradómi á Íslandi frá því að heimastjórn fékkst árið 1904. Framan af sat aðeins einn ráðherra í senn en 1917 var fyrsta eiginlega ríkisstjórn landsins mynduð og sátu í henni fjórir karlmenn. Sú ríkisstjórn sem nú er við völd er sú þrítugasta og sjöunda í röðinni. Mikill fjöldi ráðherranna sat, eða hefur setið, í fleiri en einni ríkisstjórn. Sumir raunar í fjölmörgum stjórnum. Sigríður Anna Þórðardóttir, sem varð umhverfisráðherra í gær, er tíunda konan til að verða ráðherra. Auður Auðuns varð fyrst kynsystra sinna til að gegna ráðherraembætti á Íslandi, hún var dómsmálaráðherra í eitt ár. Athyglisvert er að konur hafa setið í helmingi ráðuneyta stjórnarráðsins en sex ráðherraembættum hafa konur aldrei gegnt. Það eru embætti forsætis-, fjármála-, landbúnaðar-, samgöngu-, sjávarútvegs- og utanríkisráðherra. Fimm þessara kvenráðherra hafa komið úr Sjálfstæðisflokknum, þrír úr Framsóknarflokki og tveir úr Alþýðuflokki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×