Innlent

Tók þátt í kaupum á Skjá einum

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður Útvarpsráðs, tók virkan þátt í því að fá Símann til að fjárfesta í sjónvarpsstöðinni Skjá einum og sjónvarpsréttinum á enska boltanum. Menntamálaráðherra segist ætla að kanna málið. Gunnlaugur Sævar er fulltrúi Sjálfsstæðisflokks í Útvarpsráði og gegnir þar formennsku. Hlutverk Útvarpsráðs er samkvæmt heimasíðu Ríkisútvarpsins að taka ákvarðanir um hvernig útvarpsefni skuli hagað í höfuðdráttum, innan marka fjárhagsáætlunar. Þá gerir Útvarpsráð tillögur til útvarpsstjóra um ráðningu starfsfólks dagskrár. Gunnlaugur er þannig fulltrúi Sjálfsstæðisflokksins í pólitísku ráði sem hefur ýmislegt um rekstur Ríkisútvarpssins að segja. Fréttastofan hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að Gunnlaugur Sævar hafði milligöngu um sölu á fjórðungshlut í Skjá einum á dögunum og um leið sýningarréttinum á enska boltanum. Mörgum kann að finnast þessi tvö hlutverk stangast á. Gunnlaugur mun samkvæmt heimildum hafa verið ákafur talsmaður þess að Norðurljós, sem reka meðal annars fréttastofu Stöðvar 2, myndu ekki ná að komast yfir enska boltann. Gunnlaugur hefur ekki svarað skilaboðum í dag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagðist í samtali ekki hafa rætt þetta við formann Útvarpsráðs en að hún myndi skoða málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×