Innlent

Sjálfstæðiskonur ósáttar

Sjálfstæðiskonur eru afar vonsviknar yfir því að Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra hafi valið karlmann sem aðstoðarmann. Sigríður Anna hefur verið ötull talsmaður jafnréttis innan flokksins og hvatamaður fyrir aukinni samvinnu kvenna. Hún hefur lýst því yfir að hún sé ekki ánægð með stöðu kvenna innan flokksins. Fréttablaðið ræddi við fjölmargar sjálfstæðiskonur í gær, sem lýstu yfir vonbrigðum með vali Sigríðar Önnu. Þær treystu sér þó ekki til þess að koma fram undir nafni, heldur sögðust fyrst vilja ræða málið innan sinna raða. Sjálfstæðiskonur eru ekki sáttar við hve konum fækkaði í þingflokknum eftir síðustu kosningar. Þær hafa haldið reglulega fundi þar sem ræddar hafa verið hugmyndir um hvernig bæta megi hlut kvenna í flokknum. Sigríður Anna hefur tekið virkan þátt í því starfi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra olli flokkssystrum sínum vonbrigðum þegar hún valdi karlmann sem aðstoðarmann um síðustu áramót. Sjálfstæðiskonur segja ákvörðun Sigríðar Önnu hafa magnað upp óánægjuna er þá spratt upp. Þær segja að mikið sé af hæfum konum innan flokksins og að konur hafi staðið sig afskaplega vel sem aðstoðarmenn hingað til. Þær væru alveg jafnvígar í starfið og karlar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×