Erlent

Aukin harka hjá Pútín og Tjetjenum

Sífellt meiri harka færist í málflutning Pútíns Rússlandsforseta og leiðtoga tsjetsjenskra uppreisnarmanna. Rússar íhuga forvarnarstríð, en segja hryðjuverkamennina hafa skilgreint vígvöllinn, sem sé allsstaðar. Tsjetsjenski uppreisnarleiðtoginn Shamil Basayev sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði menn á sínum vegum hafa framið hryðjuverkin í smábænum Beslan, þar sem yfir 300 manns týndu lífi. Hann gekkst einnig við fleiri hryðjuverkum á liðnum vikum, gerði grein fyrir kostnaði við þau hryðjuverk, reyndi að réttlæta þau og bar þau saman við kjarnorkuárásir Bandaríkjamanna á Nagasaki og Hiroshima í seinni heimsstyrjöldinni. Vladímír Pútín, forseti Rússlands, virðist ætla að láta sverfa til stáls í átökum sínum við hryðjuverkamenn og uppreisnarmenn í Tsjetsjeníu. Hann sagði í gær til athugunar að gera forvarnarárásir á hryðjuverkamenn. Þau skref yrðu í samræmi við lög og stjórnarskrá Rússlands sem og alþjóðalög. Á honum var þó að skilja, að enginn væri óhultur og vígvöllurinn væri allsstaðar. Það væri ekki ákvörðun yfirvalda að há stríð á þeim forsendum, heldur hefðu hryðjuverkamenn skilgreint vígvöllinn svo. Pútín sakaði einnig Vesturlönd um að vera eftirlát við hryðjuverkamenn, og hræsnisfull. Orð hans eru túlkuð sem lítt dulbúin gagnrýni að kröfur vestrænna stjórnmálaleiðtoga þess efnis, að Rússar setjist að samningaborði með tsjetsjenskum uppreisnarmönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×